25 okt. 2021Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna, hefur valið liðið sitt fyrir fyrstu tvo leikina í undankeppni EuroBasket Women´s 2023 sem hefst núna í nóvember.
Leikið verður í núna í fyrsta landsliðsglugganum í undankeppninni núna í nóvember. Næstu gluggar verða svo í nóvember 2022 og febrúar 2023 en mótherjar Íslands í riðlinum eru Spánn, Ungverjaland og Rúmenía. Leikið er heima og að heiman og fer efsta liðið beint á EM2023 en möguleiki er fyrir besta annað sætið að fylgja með á lokamótið (fjögur lið með bestan árangur úr öllum undanriðlunum tíu).
Núna í nóvember á Ísland sína fyrstu tvo leiki, fyrst verður leikið á útivelli gegn Rúmeníu þann 11. nóvember í Búkarest, og svo hér heima gegn Ungverjalandi. Heimaleikurinn fer fram í Ólafssal á Ásvöllum sunnudaginn 14. nóvember kl. 20:00.
Liðið mun ferðast út sunnudaginn 7. nóvember og vera við æfingar ytra fram að leik.
Ólafur Jónas nýr aðstoðarþjálfari:
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Vals, hefur tekið að sér aðstoðarþjálfarahlutverk í liðinu, og verður ásamt Halldóri Karli Þórsyni, í aðstoðarþjálfarateymi landsliðsins. Danielle Rodriguez sem hefur verið aðstoðarþjálfari landsliðsins flutti í vor til Bandaríkjana en hún tók að sér aðstoðarþjálfarastöðu við University of San Diego háskólanum í Kaliforníu. KKÍ þakkar henni kærlega fyrir vel unnin störf og velfarnaðar í framtíðinni.
Meira