Þjálfarastig 3

KKÍ þjálfari 3 – Afreksþjálfun

KKÍ þjálfari 3 er þriðji hluti af þjálfarmenntun í Menntakerfi KKÍ og er hluti af þjálfaramenntun ÍSÍ. Námskeiðið er 80 kennslustundir og skiptist upp í þrjá hluta KKÍ 3a, KKÍ 3b og KKÍ 3c og hefur fræðslustjóri KKÍ yfirumsjón með náminu þar sem lögð er áhersla á afreksþjálfun í körfuknattleik.

Að loknu námi öðlast þátttakendur þjálfaragráðuna KKÍ þjálfari 3 sem veitir þeim leyfi til að þjálfa meistaraflokk í úrvalsdeild, 1. deild og vera yfirþjálfara yngri flokka. Námið veitir þátttakendum leyfi til að þjálfa yngri landslið og vera aðstoðarþjálfari A-landsliða. Þá gefur gráðan jafnfram réttindi til þess að vera leiðbeinandi á þjálfaranámskeiðum sem og leyfi til að taka að sér þjálfun í vettvangsnámi í Menntakerfi KKÍ.

 

Uppbygging námskeiðsins KKÍ þjálfari 3

 

KKÍ 3A

KKÍ þjálfari 3A er helgarnámskeið, þar sem kennarar eru tveir eða fleiri reynslumiklir þjálfarar og mögulega einnig erlendur þjálfari. Námskeiðið er samtals 13,5 tímar. Áhersla er lögð á þjálfun á elstu stigum, farið í leikgreiningu (e. Scouting), í ólíka hugmyndafræði og unnið í ýmis konar leikfræði (taktík).

Föstudagur
17:00-17:10 Setning
17:10-18:30 Skipulag þjálfunar, áætlunargerð á efsta stigi Bóklegt
18:40-20:00 Uppsetning á leikáætlun og undirbúningur fyrir leik Bóklegt

Laugardagur
09:00-10:20 Leikgreining (e. scouting) Bóklegt
10:30-11:50 Sóknarleikur íslenskra unglingalandsliða eða annar sóknarleikur Verklegt
11:50-12:30 Matarhlé
12:30-13:50 Sóknarleikur íslenskra unglingalandsliða Verklegt
14:00-15:20 Varnarleikur íslenskra unglingalandsliða Verklegt
15:20-16:00 Umræður

Sunnudagur
09:00-10:20 Líkamleg þjálfun (þol og styrkur) Verklegt
10:30-11:50 Svæðisvarnir Verklegt
11:50-12:30 Matarhlé
12:30-13:50 Sóknarleikur gegn svæðisvörn Verklegt
14:00-15:20 Sókn við sérstakar aðstæður (e. special situations) Verklegt
15:30-16:10 Krossapróf 20% Bóklegt

KKÍ 3B

KKÍ 3B námskeiðið stendur yfir helgi og er 20 kennslustundir eða 13,5 klukkutímar. Fyrirlesarar eru tveir eða fleiri reynslumiklir þjálfarar og mögulega einnig erlendir þjálfarar. Farið er í hvernig skuli leita að leikmönnum fyrir sitt lið (e. player recruiting), hraðupphlaupssókn (e. secondary break), vörn á boltahindranir (e. ballscreen defense), sókn með boltahindranir (e. ballscreen offense). Endanleg dagskrá getur verið nokkuð breytileg og fer að miklu leyti eftir fyrirlesurum hverju sinni, þar sem unnið er í ólíkri hugmyndafræði og taktík eftir fyrirlesurum.

Föstudagur
17:00-17:10 Setning
17:10-18:30 Sálfræðilegur undirbúningur Bóklegt
18:40-20:00 Leit að leikmönnum (e. player recruiting) Bóklegt

Laugardagur
09:00-10:20 Pressuvarnir Verklegt
10:30-11:50 Hraðaupphlaupssókn (e. secondary break) Verklegt
11:50-12:30 Matarhlé
12:30-13:50 Vörn á boltahindranir (e. ballscreen defense) Verklegt
14:00-15:20 Sókn með boltahindrunum (e. ballscreen offense) Verklegt
15:20-16:00 Umræður

Sunnudagur
09:00-10:20 Sókn með bak í körfuna (e. low post) Verklegt
10:30-11:50 Vörn með bak í körfuna (e. low post) Verklegt
11:50-12:30 Matarhlé
12:30-13:50 Mælingar á leikmönnum (e. test) Bóklegt/verklegt
14:00-15:00 Skriflegt Lokapróf KKÍ 3 (30%) Bóklegt Próf
15:20-16:00 Farið yfir verkefnalýsingu á lokaverkefni í þjálfara KKÍ Bóklegt


KKÍ 3C

Lokahluta þjálfaranáms KKÍ er einungis hægt að taka sé öðrum þáttum lokið og búið sé að klára ÍSÍ 1, 2 og 3. Hluti 3C skipt upp í tvennt, námskeið erlendis og lokaverkefni til að útskrifast sem KKÍ 3 þjálfari.

Lokaverkefni

Lokaverkefni er skipt í tvo þætti, en standast þarf báða þætti lokaverkefnisins til að standast KKÍ 3C.

  1. Annars vegar er það námskeið erlendis sem þjálfari sækir með samþykki fræðslustjóra.
  2. Hins vegar er það þjálffræðisýn sem þjálfari þarf að móta sér og koma skýrt og skorinort frá sér.

Einkunn er gefin sem staðið eða fall. Fái þjálfari fall fyrir verkefni gefst honum eitt tækifæri til að laga verkefnið, að öðrum kosti þarf að taka námskeiðið aftur. Yfirferð verkefnis er stýrt af fræðslustjóra, en fræðslustjóri mun leita til 1-2 reyndra þjálfara til að fara yfir verkefnið.

KKÍ getur birt að hluta eða öllu leyti þau verkefni sem teljast framúrskarandi.

Markmið
  • Hvetja þjálfara til að leita sér þekkingar fyrir utan landssteinanna
  • Auka sjálfstæð vinnubrögð þjálfara
  • Að þjálfari móti sér sjálfstæða og skýra sýn á sínar þjálfunaraðferðir og geti miðlað þeirri sýn á hnitmiðaðan hátt

1. Nám erlendis

Þjálfari sækir sér menntun af námskeiði eða vettvangsnámi erlendis. Námið þarf að innihalda um 14 klukkutíma. Námskeiðið þarf að vera samþykkt af fræðslustjóra KKÍ.

Eftir námskeiðið ritar þjálfari verkefni um námskeiðið, það helsta sem kom fram á námskeiðinu (þjálfaraglósur) og hvaða lærdóm þjálfari dró af námskeiðinu.

Verkefnalýsing
  • Forsíða, nafn námskeiðs og fyrirlesara.
  • Inngangur: kynning á námskeiði, af hverju þetta námskeið var valið og hverjar væntingar þjálfara voru til námskeiðsins.
  • Meginmál: velja fjóra fyrirlesara og segja ýtarlega frá. Taka saman almennar þjálfaraglósur um aðra fyrirlestra en þá fjóra sem valdir eru. Innihald fyrirlestra skal skýrt í orði og myndum.
  • Umræður: draga saman og segja frá í hnitmiðuðu máli.
  • Lengd: 15-20 síður
  • Letur: Times New Roman/Arial
  • Leturstærð: almenn textastærð 12 með 1,5 línubil; fyrirsagnir textastærð 16 og undirfyrirsagnir textastærð 14; neðanmálsgreinar (e. footnotes) textastærð 10
  • Myndir: u.þ.b. 7x5 sentimetrar hálfur völlur, og heill völlur 7x10 sentimetrar

Mikilvægt er að vanda orðanotkun og stafsetningu. Mælt er með því að þjálfari fái einhvern til að prófarkalesa verkefnið áður en því er skilað. Efni þessa þáttar er metið út frá innihaldi, uppsetningu ásamt málfræði og stafsetningu.

2. Þjálffræðisýn (e. coaching philosophy)

Þjálfari þarf að móta sér sjálfstæða og skýra sýn á sínar þjálfunaraðferðir og hvernig þjálfari vill að leikurinn sé spilaður. Skipta skal þessum hluta verkefnis upp í minnsta kosti:

  1. Þjálffræðisýn - skilgreinist eftir inngang verkefnis. Hægt er að leita frekari skýringa og aðstoðar hjá fræðslustjóra vegna þessa hluta verkefnis.

  2. Þjálffræði - hvaða meginreglur (e. principles) styðst þjálfari við í sinni nálgun. Af hverju þessar meginreglur. Hvernig þjálfari kennir og leiðbeinir sínum leikmönnum (kennslufræði þjálfara). Hvernig þjálfari sér fyrir sér þróun efnilegra leikmanna, en koma þarf með dæmi um þrjár æfingar, hverjar áherslurnar yrðu, af hverju þær áherslur verða fyrir valinu, lengd æfingar og vænt langtímaáhrif á svoleiðis æfingum og þjálfun.

  3. Hvernig þjálfari sér fjóra þætti leiksins fyrir sér (e. philosophy of play): a) sókn á hálfum velli; b) vörn á fullum velli (e. transition defense); c) vörn á hálfum velli; og d) sókn á heilum velli (e. transition offense). Hverjar eru helstu áherslur í hverjum þætti leiksins og af hverju. Hvernig tengjast þessar áherslur saman og mynda eina heildstæða sýn. Hvernig tengjast þessir fjórir þættir leiksins saman við þjálffræðisýn þjálfara? Hvaða æfingar (2-3 í hverjum þætti) myndi þjálfari nota til að kynna og þjálfa þessa sýn?

Þjálfari þarf að færa rök fyrir sínum skoðunum og getur vitnað í heimildir ef vilji er fyrir því. Athugið að ekki er verið að leita að því hvaða sóknarkerfi (e. set plays) þjálfari myndi hlaupa, heldur hver heildarfílósófía þjálfara er þegar kemur að framangreindum þáttum.

Verkefnalýsing
  • Forsíða, nafn námskeiðs og leiðbeinanda.
  • Inngangur: almennt um sýn þjálfara á körfubolta.
  • Grunnur: virði þjálfara (e. values), aðgerðaryfirlýsing þjálfara (e. action statement), erindisyfirlýsing þjálfara (e. mission statement), frammistöðustaðall þjálfara (e. standard of performance), erindisyfirlýsing liðs (e. mission statement), frammistöðustaðall liðs (e. standard of performance
  • Meginmál: annars vegar þjálffræðisýn og hins vegar fjórir þættir leiksins. Þjálfari skal nota skýringarmyndir þar sem þess gerist þörf.
  • Umræður: hverjir eru helstu áhrifavaldar þjálfara og hvernig þjálfari komst að þeirri niðurstöðu sem þjálfari hefur kynnt í verkefninu.
  • Niðurstaða: stutt samantekt á þjálffræðisýn þjálfara (mest ein blaðsíða) þar sem efni meginmáls er dregið saman á hnitmiðaðan hátt.
  • Lengd: Minnst 10 síður
  • Letur: Times New Roman/Arial
  • Leturstærð: almenn textastærð 12 með 1,5 línubil; fyrirsagnir textastærð 16 og undirfyrirsagnir textastærð 14; neðanmálsgreinar (e. footnotes) textastærð 10
  • Myndir: u.þ.b. 7x5 sentimetrar hálfur völlur, og heill völlur 7x10 sentimetrar

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira