Reglugerð um menntunarskilyrði KKÍ

Reglugerð um menntunarskilyrði þjálfara innan vébanda Körfuknattleikssambands Íslands

1. Almenn ákvæði
Allir þjálfarar sem starfa innan vébanda Körfuknattleikssambands Íslands skulu hafa fullnægjandi og viðeigandi menntun til þeirra þjálfarastarfa sem þeir eru ráðnir til. Með hugtakinu þjálfari er hér átt við hvern þann sem kennir körfubolta og skipuleggur og stjórnar körfuboltaæfingum og körfuboltaleikjum hjá aðildarfélögum KKÍ. 

2. Menntunarkröfur
Menntunarkröfur þjálfara fela í sér að þjálfarar þurfa að vera með tiltekna menntun til að fá að þjálfa tiltekna aldurshóp hjá aðildarfélögum KKÍ. 
- KKÍ 1 – Þjálfari hefur lokið eftirfarandi námskeiðum: KKÍ 1 A, 1 B og 1 C.
- KKÍ 2 – Þjálfari hefur lokið eftirfarandi námskeiðum: KKÍ 2 A, 2 B og 2 C.
- KKÍ 3 – Þjálfari hefur lokið eftirfarandi námskeiðum: KKÍ 3 A, 3 B og 3 C.
- Þjálfari 1 hefur lokið  KKÍ 1 og ÍSÍ 1.
- Þjálfari 2 hefur lokið  KKÍ 2 og ÍSÍ 2.
- Þjálfari 3 hefur lokið  KKÍ 3 og ÍSÍ 3.

Þjálfari 1 
Gefur réttindi til að þjálfa Minnibolta 11 ára og yngri og að starfa sem aðstoðarþjálfari í öllum yngri flokkum.

Þjálfari 2
Gefur réttindi til að þjálfa frá 7. flokki til og með unglingaflokki, aðstoðarþjálfari í meistaraflokkum í tveimur efstu deildum karla og kvenna, þjálfari í öðrum deildum en tveimur efstu deildum karla og kvenna og aðstoðarþjálfari yngri landsliða KKÍ.

Þjálfari 3
Gefur réttindi til að þjálfa meistaraflokka í tveimur efstu deildum karla og kvenna, að vera yfirþjálfari yngri flokka í félagsliði og þjálfa landslið KKÍ. Þjálfari 3 hefur einnig leyfi til að verða leiðbeinandi í þjálfaranámi KKÍ.


3. Endurmenntun
Þjálfari sem lokið hefur Þjálfari 3 þjálfaragráðu frá KKÍ og ÍSÍ þarf að sækja sér endurmenntun reglulega eða hið minnsta á þriggja ára fresti til að viðhalda réttindum sínum.  Ásamt því þarf hann að skila inn staðfestingu til fræðslunefndar KKÍ og að sækja fund dómaranefndar með þjálfurum á hverju hausti.

Fræðslunefnd KKÍ ákvarðar hvað telst gild endurmenntun til endurnýjunar á þjálfararéttindunum.

4. Mat réttinda
Fræðslunefnd KKÍ metur hvaða réttindi nám/námskeið á Íslandi og erlendis veita og hvaða réttindi útlendingar hafa til þjálfunar á Íslandi.

5. Undanþágur
Fræðslunefnd KKÍ er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum í reglugerð þessari ef veigamiklar og sérstakar ástæður liggja að baki. Undanþágan fæst þó einungis einu sinni fyrir hvern þjálfara fyrir hvert stig. Slíka undanþágu skal þó alltaf bera undir stjórn KKÍ til samþykktar. Óski félag eftir undanþágu þarf hún að berast skriflega á skrifstofu KKÍ fyrir 15. september.

6. Viðurlög
Þau félög sem uppfylla ekki fyrrgreindar kröfur um menntun þjálfara þurfa að greiða sektir í lok hvers keppnistímabils og eru þær sem hér segir:
- Kr.   50.000 vegna flokka sem tilheyra Þjálfara 1. 
- Kr. 100.000 vegna flokka sem tilheyra Þjálfara 2.
- Kr. 250.000 vegna flokka sem tilheyra Þjálfara 3.

Félag sem verður uppvíst að því að hafa rangt við hefur fyrirgert möguleikum sínum á öllum undanþágum. 

7. Gildistaka
Reglugerð þessi tekur gildi 1. júní 2011 með breytingum í ágúst 2019.

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira