8 maí 2020Í sumar fer Úrvalsbúðir KKÍ að venju en um er að ræða æfingabúðir drengja og stúlkna sem fædd eru 2007, 2008 og 2009 að þessu sinni. Ákveðið hefur verið að æft verður eina helgi í sumar, helgina 15.-16. ágúst, og fara búðirnar fram á höfuðborgarsvæðinu.
Sá fyrirvari er settur á að búðirnar fara eingöngu fram á settum tíma í ágúst ef allt verður í lagi og leyfilegt af hálfu yfirvalda sóttvarna og annara aðila vegna COVID-19 faraldursins.
Þjálfarar félaganna hafa nú tilnefnt sína leikmenn í búðirnar frá félögunum og munu leikmenn fá boðsbréf til sín í byrjun júní í pósti. Úrvalsbúðir KKÍ eru fyrsta stig afreksstarfsins og hluti af hæfileikamótun yngstu leikmannana og hafa verið mjög vel sóttar og vinsælar undanfarin ár.
Um Úrvalsbúðir KKÍ:
KKÍ stendur fyrir æfingabúðum fyrir úrvalshópa hvers árgangs á hverju sumri sem hefur tekist vel og skilað góðum árangri. Úrvalshóparnir, sem eru undanfari yngri landsliða Íslands og æfa undir leiðsögn reyndra þjálfara ásamt vel völdum gestaþjálfurum og fara yfir ýmis tækniatriði á stöðvaræfingum. Þar verður meðal annars farið yfir og æfð atriði eins og skottækni, sendingar, boltameðferð og sóknarhreyfingar og meðal annars kynntar hugmyndir og hugtök um það sem koma skal í yngri landsliðum KKÍ.