4 jan. 2002Leikir á Íslandsmótinu og bikarkeppninni verða áberandi um helgina, en í kvöld hefst keppni á ný eftir jólafrí. Alls eru 23 deildar og bikarleikir á dagskrá um helgina. Hæst bera leikirnir í 8-liða úrslitum karla í bikarkeppni KKÍ & Doritos, en fyrsti leikurinn er í Þorlákshöfn í kvöld er heimamenn taka á móti KR. Á morgun mætast síðan Tindastóll og Keflavík á Króknum og Reynir og UMFN í Sandgerði. Á sunnudag taka Haukar síðan á móti Þór Ak. Í 1. deild kvenna verða fjórir leikir á dagskrá um helgina, þar af tveir á Ísafirði er heimastúlkur taka á móti stöllum sínum úr Njarðvík. Fyrri leikurinn er í kvöld og sá síðari á morgun. Liðin mætast síðan í þriðja sinn á sunnudag og þá í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Njarðvíkurstúlkur fóru af stað akandi til Ísafjarðar upp úr hádegi í dag, ásamt dómurum leikjanna, en innalandsflug hefur legið niðri í dag vegna veðurs. Þá eru þrír leikir á dagskrá í 1. deild karla um helgina og fjöldi leikja í 2. deild karla og kvenna. Einnig hefst bikarkeppni yngri flokkanna í kvöld og verður hún í gangi næstu viku eða svo. Það eru 16-liða úrslit í öllum flokkum nema 8-liða úrslit í 9. flokki kvenna.