Noregur og Ísland léku tvo leiki í gær og fyrradag í Bergen í Noregi. Leikirnir eru liður í undirbúningi íslenska liðsins fyrir forkeppni EuroBasket 2021 og eru úti í boði norska sambandsins sem heldur upp á 50 ára afmæli sitt í ár.
Noregur-Ísland: Fyrri leikur 2. september
Eftir að Ísland hafði skorað aðeins fimm stig í öðrum leikhluta og lent 20 stigum undir í hálfleik, þá er skemmst frá því að segja íslenska liðið kom allt annað til leiks í seinni hálfleik og byrjaði fljótlega að minnka muninn hægt og rólega með betri varnarleik og skilvirkari sókn. Frábært kafli í lok leikhlutans og í byrjun fjórða leikhluta lagði grunninn að því að leikurinn varð jafn og þá sýndu íslensku strákarnir sínar bestu hliðar og lönduðu sigri 69:71, með yfirvegun og skynsömum leik og frábærri vörn.
Pétur Rúnar meiddist á upphafsmínútum leiksins og gat því ekkert spilað meira en hann fékk högg á nefið og verður væntanlega að hvíla á morgun. Þá varð Hjálmar Stefánsson fyrir fótameiðslum í gær á æfingu og gat ekki beitt sér í upphafi og var því hvíldur til að taka stöðuna á morgun. Allir leikmenn liðsins tóku þátt og lögðu sitt af mörkum sem skóp sigurinn. Virkilega flottur liðssigur í kvöld.
Stigahæstur var fyrirliðinn Ólafur Ólafsson með 19 stig og 3 fráköst. Haukur Óskarsson var með 13 stig og Collin Pryor var með 10 stig og 11 fráköst. Danero Thomas og Kristinn Pálsson skoruðu 8 stig hvor. Þá gáfu Kristinni Pálsson 5 stoðsendingar og Emil Barja 6 stoðsendingar og hann tók einnig 9 fráköst.
Noregur-Ísland: Seinni leikur 3. september
Liðin mættust í gær, mánudag, í síðari leik heimsóknarinnar. Íslenska liðið byrjaði vel og spilaði góða liðsvörn. Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn hjá liðunum í dag en Ísland var skrefinu á undan. Allir íslensku leikmennirnir lögðu sitt af mörkum í sókninni og staðan í hálfleik var 6 stig Íslandi í vil. Rétt eins og í fyrri leiknum gekk Ísland frá Noregi í seinni hálfleik og lokastaðan 58:89 fyrir Íslandi.
Emil Barja leiddi íslenska liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum. Hann skilaði 15 stigum, 6 fráköstum og 7 stoðsendingum. Gunnar Ólafsson var með 13 stig og flotta skotnýtingu, en alls skoruðu 5 leikmenn 10 stig eða meira og hélt íslenska liðið gestgjöfunum öllum undir 10 stigum nema einum leikmanni sem skoraði 11 stig.
Framundan er leikur gegn Portúgal í forkeppni Eurobasket 2021 en tíu leikmenn koma til æfinga á Íslandi þann 7. september næstkomandi.
#korfubolti