Á morgun verður haldinn hádegisverðarfundur hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands um afar áhugavert málefni - aðgengi að íþróttahreyfingunni. Því miður á undirritaður þess ekki kost að komast á umræddan fund, en ég hlakka til að fá gögn og fregnir af efnistökum fundarins. Samkvæmt umfjöllun sem ég hef séð um fundinn virðist viðfangsefnið einkum vera aðgengi er lýtur að annarsvegar fordómum eða vandræðum tengdum kynþáttum og hinsvegar samkynhneigð. Hvort tveggja viðkvæm málefni og lítt rannsökuð. Ég hygg að ekki sé á neinn hallað þótt ég leyfi mér að halda því fram að þegar kemur að samskiptum kynþátta þá hafi íslensk körfuknattleikshreyfing tekið út sinn þroska nokkuð fyrr og ítarlegar en aðrar íþróttagreinar á Íslandi. Þeir sem eru eldri en tvævetur muna vel ástand sem ríkti t.a.m. þegar fyrstu blökkumennirnir komu til að leika körfuknattleik á Íslandi á áttunda áratug síðustu aldar. Þeir voru áberandi í fjölmiðlum, og gátu vart brugðið sér í bæinn eða á skemmtistað án þess að vekja talsverða athygli - og jafnvel verða fyrir miklu áreiti. Sem betur fer held ég að þróun hafi orðið verulega til betri vegar a.m.k. innan vébanda körfuknattleiksins, og ég leyfi mér að vona að takmarkanir á aðgengi að íslenskum körfuknattleik séu litlar hvað þennan málaflokk varðar. Spyrja má hinsvegar hversu langt slíkt nær út fyrir raðir körfuknattleiksins, og minni ég á að fyrir 1-2 árum síðan ritaði ég sérstaklega [v+]http://www.kki.is/greinar.asp?adgerd=ein&id=173[v-] pistil[slod-] á þessum vettvangi þar sem ég leiddi líkum að því að kynþáttafordómar kunni að hafa ómeðvitað mótað skoðanir fjölmiðla og almennings. Því miður. Varðandi samkynhneigð þá verð ég hreinlega að viðurkenna að engin sérstök rannsókn eða umfjöllun hefur farið fram um takmarkanir á aðgengi að íslenskri körfuknattleikshreyfingu vegna slíks. Ég vona sannarlega að engar slíkar takmarkanir séu raunin, og tel æskilegt að einstakar einingar og félög hugi að því að engir slíkir fordómar þróist innan okkar vébanda. Er umfjöllunarefnið sannarlega þarft. En takmarkanir á aðgengi að íþróttahreyfingunni geta í sumum tilvikum verið réttlætanlegar. Flestir, ef ekki allir, eru sammála um að misnotkun lyfja er frágangssök, og um þau mál gilda alþjóðlegar og strangar reglur. Skilaboðin eru skýr - slíkt fer ekki saman við iðkun íþrótta. Lyfjareglur lúta einnig að heilbrigði og heilsuöryggi þátttakenda, en þar vakna jafnframt spurningar t.d. um sjúkdóma á borð við eyðni eða aðra smitsjúkdóma. Þekkja t.d. flestir sögu Earvin “Magic” Johnson sem varð fyrir vissum takmörkunum á þátttöku sinni í körfuknattleik af slíkum orsökum. Vissulega eru fleiri takmarkanir sem finna má í einstökum reglum hreyfingarinnar, sem geta takmarkað þátttöku tímabundið eða varanlega s.s. vegna alvarlegra ofbeldisbrota, agabrota o.s.frv. Það verða þó að teljast sértækar takmarkanir sem ekki eru til umfjöllunar hér. Að meginstefnu til hygg ég að samfélagslegum markmiðum um opna íþróttahreyfingu sé náð án takmarkana á þátttöku vegna pólitískra skoðana, trúarbragða, stéttar, efnahags eða annarra slíkra viðurkenndra mannréttinda. Íþróttahreyfingin er líklega stéttlausasta samfélag heimsins, sbr. fyrri [v+]http://www.kki.is/greinar.asp?adgerd=ein&id=85[v-] umfjöllun[slod-] mína þar að lútandi fyrir nokkrum árum. Engu að síður þurfa menn að halda vöku sinni í breytilegum heimi nútímans. Teikningamál Jyllandsposten ættu t.d. að hringja viðvörunarbjöllum innan íþróttahreyfingarinnar líkt og öðrum einingum samfélaga heimsins. Eitt framangreint atriði vil ég þó draga út sem ég hef dálitlar áhyggjur af, og tel að kunni að vera vanmetið hér á innanlandsvettvangi - en það er efnahagur. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum láta fátækt koma í veg fyrir íþróttaiðkun íslenskra barna. Það - ásamt því að bregðast skyldum okkar til umönnunar öryrkja og aldraðra - yrði einn dapurlegasti vitnisburður um þróun eins efnaðasta menningarsamfélags heimsins. Því miður eru vísbendingar um að fátækt sem takmörkun á þátttöku barna í íþróttum kunni að vera staðreynd á Íslandi í dag. Gegn því þurfum við að berjast. Nokkur framsýn sveitarfélög standa öðrum framar að þessu leyti með því að niðurgreiða æfingagjöld yngstu iðkenda, og má þar sem dæmi nefna Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ. Það ber að virða sem fjárfestingu í þegnum og framtíðargildum samfélagsins, og mun án efa veita þeim sveitarfélögum forskot sem ég hygg að menn muni gera sér grein fyrir þegar fram líða stundir. Ólafur Rafnsson, formaður KKÍ.