Ár 2004, föstudaginn 26. nóvember, var í Áfrýjunardómstóli Körfuknattleikssambands Íslands í málinu nr. 1/2004: Körfuknattleiksdeild Fjölnis gegn körfuknattleiksdeild Hauka uppkveðinn svohljóðandi d ó m u r : Mál þetta dæma Halldór Halldórsson, Gísli Gíslason og Helgi I. Jónsson. Áfrýjandi skaut málinu til dómsins með bréfi 15. nóvember síðastliðinn. Áfrýjað er dómi dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands uppkveðnum 3. sama mánaðar. Dómurinn var birtur aðilum 10. nóvember sl. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og úrslit leiks standi eins og dómari úrskurðaði að leik loknum, en til vara að dómur dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands verði felldur úr gildi og úrslit leiksins verði látin standa. Stefndi krefst þess að honum verði dæmdur sigur í leik aðila í Intersport deild karla 7. október 2004, en til vara að dómur dómstóls Körfuknattleikssambands Íslands verði staðfestur. I. Þegar 8 sekúndur voru eftir af leik aðila í Intersport deild karla, sem fram fór 7. október síðastliðinn í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi, heimavelli liðs áfrýjanda, átti lið stefnda innkast frá hliðarlínu. Eftir að innkastið var tekið skoraði lið stefnda tveggja stiga kröfur og heldur stefndi því fram að það hafi gerst áður en leiktíminn rann út. Hafi lið stefnda þar með komist einu stigi yfir lið áfrýjanda, 88-87. Karfan var hins vegar dæmdu af þar sem leikklukkan hafði ekki farið í gang. Var innkastið því endurtekið og tókst liði stefnda ekki að skora áður en leiktíminn rann út. Vann lið áfrýjanda því leikinn 87-86. Aðaldómari leiksins hefur gefið þær skýringar á þeirri ákvörðun dómara að láta endurtaka áðurnefnt innkast að þeir hafi ekki getað með fullri vissu metið hvort umrædd karfan, sem lið stefnda skoraði, hafi verið skoruð innan tímamarka og þá hafi ekki verið unnt að slá föstu að leikmennirnir hafi leikið á fullu „þrátt fyrir að leikklukkan var stopp.” II. Ekki þykja efni til að verða við aðalkröfu áfrýjanda. Í gr. 46.12 í reglum um körfuknattleiksmót segir að aðaldómari skuli hafa vald til að úrskurða um atriði sem ekki eru sérstaklega tiltekin í reglunum. Í dómi í máli þessu verður ekki lagt mat á réttmæti þeirrar ákvörðunar dómara sem mál þetta er sprottið af. Í hverjum leik taka dómarar margar matskenndar ákvarðanir sem ekki verða endurskoðaðar af dómstólum Körfuknattleikssambands Íslands. Mistök, sem dómarar kunna að gera, eru hluti af leiknum og verða ekki leiðrétt eftir á. Hin umdeilda ákvörðun dómara var hluti af þeim leik sem lið aðila háðu 7. október síðastliðinn og verður ekki við henni hróflað. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að úrslit leiksins skuli standa. Dómsorð: Úrslit leiks milli liða aðila máls þessa í Intersport deild karla 7. október 2004 skulu óhögguð standa. Halldór Halldórsson Gísli Gíslason Helgi I. Jónsson