Reglugerð um veitingu heiðursmerkja
Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands veitir þeim mönnum heiðursviðurkenningar sem unnið hafa af atorku og dugnaði að vexti og viðgangi körfuknattleiksíþróttarinnar.
Heiðursviðurkenningar eru þessar:
1) Gullúr fyrir 100 landsleiki
2) Gullúr fyrir 75 landsleiki kvenna
3) Silfurmerkið
4) Gullmerkið
5) Heiðurskross úr gulli
Við veitingu heiðursviðurkenninga ber að hafa eftirfarandi í huga:
Gullúr fyrir 100 landsleiki
Stjórn KKÍ skal veita þeim körfuknattleiksmönnum sem náð hafa að leika 100 landsleiki gullúr í viðurkenningarskyni.
Gullúr fyrir 75 landsleiki kvenna
Stjórn KKÍ skal veita þeim körfuknattleikskonum sem náð hafa að leika 75 landsleiki gullúr í viðurkenningarskyni.
Silfurmerkið
Silfurmerkið veitist þeim sem unnið hafa vel og dyggilega að eflingu körfuknattleiksíþróttarinnar í áratug eða lengur. Merkið má sæma þá menn er leika gegn íslenska landsliðinu í milliríkjaleikjum og erlenda leiðtoga og fulltrúa í körfuknattleik.
Gullmerkið
Gullmerkið veitist aðeins þeim mönnum sem unnið hafa körfuknattleiksíþróttinni langvarandi og þýðingarmikil störf.
Þeir sem hljóta heiðursviðurkenningar Körfuknattleikssambands Íslands skulu einir hafa rétt til að bera þær og er þeim ekki heimilt að láta þær af hendi.
Heiðurskross úr gulli
Heiðurskross þessi, sem er æðsta heiðursmerki KKÍ veitist aðeins undir sérstökum kringumstæðum þeim mönnum sem unnið hafa körfuknattleiksíþróttinni ómetanlegt gagn um árabil. Heiðurskrossi skal einnig fylgja sérstakt heiðursskjal.
Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira