Afreksstefna
AFREKSSTEFNA KKÍ 2021-2025
Hlutverk KKÍ
Hlutverk KKÍ er að auka áhuga og þátttöku á körfuknattleiksíþróttinni með því að halda úti öflugu afreksstarfi frá 14 ára aldri. Ein leið til að auka áhuga og þáttöku er að senda sem flest landslið KKÍ í Norðurlandamót og Evrópukeppnir á hverju ári og er það því bæði markmið og skylda sambandsins að auka þátttöku landsliða á erlendum vettvangi. Með því er verið að búa til fyrirmyndir sem stuðla að frekari þátttöku í íþróttinni. KKÍ stuðlar þannig að því að körfuknattleiksíþróttin eignist sem flesta atvinnumenn, sem er nauðsynlegt til að hámarka árangur í elstu aldursflokkunum á alþjóðavettvangi.
Afreksnefnd
Afreksnefnd er ráðgefandi til stjórnar KKÍ og tekur á öllu þáttum í afreksmálum sambandsins eins og um ráðningar landsliðsþjálfara, val á alþjóðalegum verkefnum landsliðanna, afreksáætlun og fleira.
Formaður afreksnefndar ásamt tveim nefndarmönnum koma úr stjórn sambandsins en fjórir meðstjórnendur eru skipaðir af stjórn að loknu körfuknattleiksþingi, sem haldið er á tveggja ára fresti. Stefna stjórnar er að velja aðila í Afreksnefnd sem eru fyrrverandi afreksfólk, þjálfarar og/eða einstaklingar með mikla reynslu í stjórn afreksmála. Formaður KKÍ og afreksstjóri sitja einnig fundi Afreksnefndar sem haldnir eru a.m.k. einu sinni í mánuði allt árið um kring. Afreksnefnd leggur áherslu á að fræðsla til þjálfara sé aukin og fundar í því sambandi með fræðslunefnd eins og þurfa þykir. Skilyrði fyrir því að hægt sé að auka árangur í afreksstarfinu er góð og markviss þjálfun barna og unglinga.
Stjórn KKÍ ræður yfirþjálfara yngri landsliða að tillögu Afreksnefndar. Yfirþjálfari yngri landsliða er faglegur ráðgjafi Afreksnefndar og annast samskipti við þjálfara yngri landsliða varðandi m.a. skipulag æfinga, æfingamagn, val á leikmönnum og skipulag liða, jafnt innan vallar sem utan. Yfirþjálfari hefur jafnframt eftirlit með með því að þjálfarar framfylgi áherslum Afreksnefndar hverju sinni.
KKÍ skilgreinir alla iðkendur sem valdir eru til æfinga með landsliðum sambandsins sem afreksíþróttafólk.
Afreksnefnd stendur fyrir eftirfarandi verkefnum:
Undirbúningsferli (ekki innan afreksstarfs)
Úrvalsbúðir fyrir 11 til 13 ára haldnar tvisvar á ári þar sem iðkendur eru tilnefndir af þjálfurum sinna félaga.
Afreksbúðir 14 ára
Afreksbúðir fyrir 14 ára haldnar tvisvar á ári þar sem framúrskarandi 50-60 iðkendur eru valdir til þátttöku af landsliðsþjálfurum KKÍ.
15 ára landslið stúlkna og drengja (U15)
Fyrsta stigið í uppeldi landsliðsfólks. Hér fær efnilegt ungt íþróttafólk innsýn í hvernig það er að vera þátttakandi í landsliði KKÍ. U15 ára landslið hafa síðastliðin ár farið á alþjóðlegt mót í Kaupmannahöfn sem er opið mót og mjög góður fyrsti keppnisvettvangur fyrir landsliðin okkar.
16 ára landslið stúlkna og drengja (U16)
Þessi lið hafa farið árlega á Norðurlandamót og stefnt er að því að liðin taki sömuleiðis reglulega þátt í Evrópukeppni yngri landsliða á vegum FIBA. Gerð er krafa um að þjálfarar séu með góða þekkingu, menntun og reynslu í þjálfun barna og unglinga og séu fagmannlegir í vali á leikmönnum. Lögð er áhersla á að þjálfarar kynni áherslur KKÍ í varnar-og sóknarleik til að undirbúa landsliðsfólkið fyrir framtíðina. Stefnt er að því að hafa umgjörðina sem besta þar semagi og faglegheit eru sambærilegog hjá eldri landsliðum.
18 ára landslið stúlkna og drengja (U18)
Þessi lið hafa farið árlega í Norðurlandamót og stefnt er að því að liðin taki sömuleiðis reglulega þátt í Evrópukeppni yngri landsliða á vegum FIBA. Gerð er krafa um að þjálfarar séu með góða þekkingu, menntun og reynslu í þjálfun barna og unglinga og séu fagmannlegir í vali á leikmönnum. Lögð er áhersla á að þjálfarar kynni áherslur KKÍ í varnar-og sóknarleik til að undirbúa landsliðsfólkið fyrir framtíðina. Stefnt er að því að hafa umgjörðina sem besta þar sem agi og faglegheit eru sambærileg og hjá eldri landsliðum.
20 ára landslið kvenna og karla (U20)
Undirbúningur fyrir síðasta stig afreksstarfsins. Lögð er áhersla á sambærilega umgjörð og hjá A-landsliðum. Aðalþjálfari liðanna skal vinna í samstarfi við þjálfarateymi A-landsliða og leggja áhersla á að hafa sömu áherslur í sóknar- og varnarleik þannig að auðvelt sé fyrir leikmenn að stíga næsta skrefið sem er þátttaka í A-landsliðsstarfi KKÍ.
A-landslið kvenna og karla.
Síðasta stig afreksstarfsins. Hér er lögð áhersla á að hámarka árangur. Markmiðið er að velja besta liðið hverju sinni og senda bæði liðin í sem flest mót, heimsmeistarakeppni, Evrópukeppni og Norðurlandamót.
Þjálfaramál
Þjálfarar á vegum landsliða KKÍ þurfa að búa yfir menntun frá menntakerfi körfuknattleiksþjálfara til að geta starfað á vegum KKÍ. Miklar kröfur er gerðar til þeirra þjálfara sem veljast til starfa fyrir KKÍ enda fylgir því mikil ábyrgða að vinna með ungu og efnilegu afreksfólki.
Dómaramál
Stefnt er að því að KKÍ eigi 6 starfandi alþjóðlega dómara, 3 eftirlitsmenn og 2 leiðbeindur hverju sinni.
Fjármögnun
KKÍ nýtur styrkja frá afrekssjóði ÍSÍ eins og önnur sérsambönd sem halda úti afreksstarfi á Íslandi. Fer upphæðin eftir stærð sjóðsins, umfangi verkefna og fjölda umsókna í sjóðinn. FIBA Europe styrkir yngri landslið vegna þátttöku í Evrópukeppnum. Þvi miður þurfa þátttakendur yngri landsliða ennþá að greiða hluta kostnaðar vegna þátttöku í erlendum verkefnum. Einnig hefur KKÍ markvisst unnið að því að fjölga styrktaraðilum sambandsins. Langtímastefnan er að landsliðin verð sjálfbær með styrkjum frá afrekssjóði ÍSÍ, FIBA, FIBA Europe og innlendum styrktaraðilum.
Aðstaða
Eitt helsta vandamál afreksstarfsins og kostar KKÍ mikla vinnu er að finna æfingatíma fyrir landsliðin. Leitað er til íþróttafélaga, bæjarfélaga og héraðssambanda um aðstöðu. Heimaleikir A-landsliðs kvenna og karla fara að öllu jöfnu fram í Laugardalshöll en það er því miður ekki er hægt að slá því föstu að aðstaðan í Laugardalshöll sé til taks vegna annarrar starfsemi sem þar fer fram.
Fagteymi
KKÍ hefur samið við Atlas endurhæfingu um umsjón með sjúkraþjálfun og íþróttalækningum landsliða sambandsins. Fjöldi fagteymisstarfsfólks sem ferðast með landsliðunum fer eftir stærð verkefna. Atlas endurhæfing hefur milligöngu um aðgang að sérfræðingum í íþróttalækningum sem hægt er að senda landsliðsfólkið til ef meiðsli eru alvarleg eða þrálát. Sjúkraþjálfari er til staðar á öllum æfingum A-landsliða kvenna og karla. KKÍ hefur notað sálfræðiteymi ÍSÍ þegar þess er þörf. Einnig hefur verið unnið með fræðasamfélaginu að því að auka almenna fræðslu til alls landsliðsfólks eins og næringarráðgjöf, styrktar- og hugarþjálfun.
Framtíðarsýn
Helsta verkefnið er að tryggja fjármögnun til lengri tíma. Framtíðarstefnan er að foreldrar yngri landsliðsfólks þurfi ekki að leggja fram fjármagn vegna þátttöku í afreksstarfi KKÍ. Því miður er það staðreynd að sambandið þarf að treysta því að foreldrar séu reiðubúnir að taka þátt í kostnaði. KKÍ hvetur til uppbyggingar afreksmiðstöðvar í Laugardal þar sem aðstaða verður til æfinga og keppni fyrir öll landslið. Markmiðið er að öll landslið KKÍ taki þátt í Norðurlanda- og Evrópumótum ásamt því að A-landsliðin taki þátt í Norðurlandamótum og undankeppnum fyrir Evrópu- og heimsmeistaramót. KKÍ stefnir að því að halda áfram að leggja áherslu á fræðslu til síns afreksfólks bæði á svið andlegrar og líkamlegrar þjálfunar. Markmið KKÍ er að dreifa þeirri þekkingu sem afreksfólkið okkar kynnist í gegnum afreksstarfið til aðildarfélaga m.a. í gegnum leikmenn, þjálfara og aðstandendur.
Árangur á Evrópu- og heimsmeistaramótum sker úr um það hvort liðin komast á Ólympíuleika. Stefnt skal að því að komast á lokamót Evrópukeppninnar með A-landslið kvenna 2025 og aftur með A-landslið karla 2023.
Hlutverk og meginstefna KKÍ er að fjölga iðkendum sem iðka körfuknattleik með góðri samvinnu allra aðildarfélaga KKÍ.
Afreksstefna þessi gildir fram að næsta Körfuknattleiksþingi vorið 2023.
Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira