/KKI%20logo%20-%20net%20-%20minni.png)
29 jan. 2026
Til hamingju með daginn !
Í dag 29. janúar 2026 eru 65 ár frá því að Körfuknattleikssamband Íslands var stofnað.
Þetta eru tímamót sem gefa okkur tækifæri til að líta um öxl, meta hvar við stöndum í dag og horfa með stolti og metnaði til framtíðar.
Þegar KKÍ var stofnað árið 1961 var íslenskur körfubolti lítil hreyfing, knúin áfram af eldmóði og hugsjónum fáeinna einstaklinga. Í dag er staðan gjörólík. Körfubolti er orðinn ein vinsælasta íþróttagrein landsins, umfjöllun um íþróttina er dagleg og körfuboltinn er orðinn hluti af daglegu lífi og menningu þjóðarinnar. Það er ótrúleg breyting á aðeins 65 árum.
Sterk og vaxandi hreyfing
Í dag æfa yfir 10.000 iðkendur körfubolta á vegum aðildarfélaga KKÍ. Þar að auki eru ótal einstaklingar sem spila körfubolta sér til heilsubótar og skemmtunar utan formlegra æfinga. Íþróttin hefur þannig náð langt út fyrir íþróttahús landsins og orðið hluti af samfélaginu í víðari merkingu.
Á hverju keppnistímabili eru leiknir um 6.000 leikir á vegum KKÍ í Íslandsmótum og bikarkeppnum. Þar eru mót félaganna og æfingaleikir ekki taldir með. Til samanburðar náðum við ekki 3.000 leikjum þegar sambandið fagnaði 50 ára afmæli fyrir aðeins 15 árum. Þessi þróun segir allt sem segja þarf um vöxt, breidd og kraft íslensks körfubolta.
Ný tækifæri
Körfubolti heldur áfram að þróast og breytast. 3x3 körfubolti, eða svokallaður götubolti, hefur rutt sér til rúms á undanförnum árum og nýtur síaukinna vinsælda. Hann hefur verið hluti af Ólympíuleikunum frá 2016 og skapar ný tækifæri fyrir leikmenn, félög og hópa til þess að koma saman og spila körfubolta. Þetta er vettvangur sem við ætlum að styðja við og byggja upp af krafti.
Árangur landsliða
Árangur íslenskra landsliða hefur vakið verðskuldaða athygli og virðingu á alþjóðavettvangi. Karlalandsliðið hefur tekið þátt í þremur EuroBasket-mótum síðan við komumst fyrst þangað árið 2015. Kvennalandsliðið hefur verið í sókn undanfarin ár og stigið stór skref fram á við. Yngri landsliðin okkar hafa ítrekað spilað í A-deildum Evrópumóts og eru yfirleitt í efri hluta B-deildar þegar þar er keppt.
Ísland og íslenskur körfubolti njóta í dag mikillar virðingar innan alþjóða körfuknattleiks-samfélagsins. Það er afrakstur áratuga vinnu, fagmennsku og samstöðu.
Kjarni hreyfingarinnar - Sjálfboðaliðarnir
Á þessum 65 árum hefur eitt ekki breyst, sjálfboðaliðinn er og hefur verið hryggjarstykkið í íslenskum körfubolta. Frá fyrstu dögum sambandsins og allt til dagsins í dag hafa sjálfboðaliðar lagt ómetanlegt framlag til íþróttarinnar. Þeir hafa haldið utan um félög, mót, dómgæslu, stjórnarstörf, nefndir og ótal verkefni sem sjást og sjást ekki.
Ég vil færa öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn, í gær, í dag og í framtíðinni, innilegar þakkir. Án ykkar væri íslenskur körfubolti einfaldlega ekki það sem hann er.
Framtíðin er björt
Saga KKÍ er saga eldmóðs, samstöðu og stöðugrar framþróunar. Við stöndum á sterkum grunni, með öfluga hreyfingu, metnaðarfull félög, frábæra leikmenn, þjálfara og samfélag sem styður við bakið á okkur.
Næstu ár munu bjóða upp á ný tækifæri, nýjar áskoranir og nýjar leiðir til að efla körfuboltann enn frekar. Við ætlum að halda áfram að byggja upp, efla breiddina, styðja við afreksstarf og tryggja að körfubolti verði áfram íþrótt fyrir alla, hvar sem þeir búa og hvaða drauma sem þeir bera í brjósti.
Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ.
Kristinn Albertsson
Formaður KKÍ


