
22 okt. 2025
KKÍ hefur framlengt samning sinn við Craig Pedersen, landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, til næstu fjögurra ára. Craig mun því leiða landsliðið fram yfir undankeppnir HM og EM fram til ársins 2029.
Craig tók við starfi landsliðsþjálfara árið 2014 og hefur verið lykilmaður í uppbyggingu íslensks körfubolta á alþjóðavettvangi. Undir hans stjórn hefur liðið þrisvar tekið þátt í lokakeppni EuroBasket (Evrópumótsins), árin 2015, 2017 og 2025 – í fyrsta sinn í sögu Íslands árið 2015. Einnig hefur hann stýrt liðinu í fjölda undankeppna og alþjóðlegra verkefna með góðum árangri.
Með áframhaldandi ráðningu Craig tryggir KKÍ stöðugleika í þróun landsliðsins á mikilvægum tíma, þar sem næstu ár fela í sér bæði nýliðun og spennandi möguleika á alþjóðlegum vettvangi. Einnig hefur verið gengið frá ráðningu aðstoðarþjálfara til næstu fjögurra ára, þeir Baldur Þór Ragnarsson og Viðar Hafsteinsson sem hafa verið í þjálfarateyminu verða áfram með Craig,
Kristinn Albertsson formaður;
„Við höfum verið mjög ánægð með störf Craig sem og þjálfaranna sem starfað hafa með honum undanfarið. Það var því eðlilegt skref að hann og hans teymi héldi áfram með liðið. Næsta markmið okkar er skýrt en það er að komast upp úr riðlinum sem við erum í núna í undankeppni HM2027 en til þess þurfum við að vera meðal þriggja efstu liðanna í riðlinum. Með því tryggjum við okkur einnig sæti í undankeppni EuroBasket2029 sem hefst í nóvember 2027 án þess að fara í forkeppni að þeirri undankeppni. Það eru spennandi tímar framundan og mikil tilhlökkun fyrir næstu leikjum bæði hjá körlunum og konunum. “
Craig Pedersen landsliðsþjálfari;
„Ég er mjög spenntur og ánægður að halda áfram sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Liðið hefur sýnt stöðugar framfarir síðustu ár og leikmennirnir hafa verið stöðugt að bæta sig. Samheldni liðsins og þeirra sem halda utan um liðið er sterk og ég er stoltur að fá að vera partur af þessum hóp áfram.“