17 okt. 2024
Áherslur dómaranefndar 2024-2025
1) Auka samræmi ákvarðana, með stöðlun verklags
2) Bæta gæði ákvarðana, með breyttu verklagi og notkun myndbandsdómgæslu í auknum mæli (HCC)
3) Stuðla að íþróttamannslegri framkomu og að dómarar beiti agaviðurlögum gegn óhóflegum og sýnilegum mótmælum.
Fyrir keppnistímabilið 2024-2025 vill dómaranefnd síðan vekja sérstaka athygli á eftirfarandi áherslubreytingum sem að verða innleiddar skv. FIBA í vetur ásamt fleirum.
FIBA hefur gefið út nákvæmar breytingar á verklagi og verkaskiptingu á milli dómara þegar þeir taka ákvarðanir um leikbrot og persónuvillur. Markmiðið með breytingum á verklaginu er að auka gæði ákvarðana og forðast leikbrot og villur sem annars hafa lítil sem engin áhrif á framgang leiksins. Það verður einkum gert með tvennum hætti;
1) Að dómari láti hreyfingu viðkomandi leikmanns (oftast sóknarmanns) klárast áður en hann tekur ákvörðun:
a) Hreyfing hefst
b) Hreyfing þróast
c) Hreyfingu lýkur
d) Dómari ákveður hvort ástæða sé til að flauta eða ekki
Þessi aðferð mun gefa dómara aukið ráðrúm til að leggja mat á hvort hin meinta ólöglega aðgerð hafi veitt hinum brotlega hagræði eða bakað andstæðingum óhagræði og geta þannig í auknu mæli litið framhjá minniháttar atvikum sem ekki hafa bein áhrif á leikinn. Þannig munu flaut dómara koma seinna en áður.
2) Sá dómari sem besta sjónarhornið hefur á atvikið skal taka ákvörðun en ekki bara sá dómari sem er næst. Þannig kann sá dómari sem er næst að hafa blint sjónarhorn og á þá ekki að dæma en treysta þá jafnframt á það að annar dómari hafi betra sjónarhorn og grípi þá inn í ef ástæða er til. Slík hjálparflaut kunna að koma enn seinna en hjá þeim dómara sem tekur ábyrgð nálægt sér.
Á mynd með fréttinni má sjá forgangsröðun um hvaða dómari skal taka ákvörðunina hverju sinni.
Einnig mun verða tekið upp það fyrirkomulag að aðalþjálfari liðs getur óskað eftir að dómarar leiks skoði atvik (HCC) í skjá á meðan leikur fer fram. Hvor þjálfari getur óskað eftir slíkri skoðun einu sinni á meðan leik stendur.
Þetta á þó aðeins við leiki þar sem að búnaður er til staðar til að skoða atvik (IRS) á meðan leik stendur.
Atriðin sem að þjálfari getur óskað eftir skoðun á eru eftirfarandi.
- Hvort að karfa hafi verið skoruð innan tímamarka
- Við lok leikhluta, leiks eða framlengingar til að leiðrétta tíma sem eftir er á klukku þegar leikbrotin bolti útaf, skotklukka rennur út, 8 sekúndur annarsvegar eða villa hinsvegar eiga sér stað.
- Hvort að skotklukka hafi verið runnin út en aðeins ef að skorað er úr skoti.
- Bilun í leik eða skotklukku til að leiðrétta hve mikill tími er eftir.
- Hvenær nákvæmlega villa fjarri bolta átti sér stað.
- Hvort að knattruflun hafi verið réttilega dæmd eða ekki dæmd
- Hvort að karfa gildi 2 eða 3 stig
- Hvort veita eigi 2 eða 3 víti
- Til að ákvarða rétta vítaskyttu
- Til að ákvarða af hvaða leikmanni bolti fór úr leik
- Til að breyta alvarleika villu (venjuleg, U-villa eða brottrekstrarvilla)
- Slagsmál eða ofbeldi
Nánar um HCC hér