20 des. 2023Sara Rún Hinriksdóttir og Elvar Már Friðriksson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2023 af KKÍ. Þetta er í 26. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.
Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum. Bæði voru þau ríkjandi Körfuknattleiks karl og kona síðasta árs. Elvar Már er nú að fá tilnefninguna í þriðja sinn og Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fjórða sinn og fjórða árið í röð. Níu karlar fengu atkvæði og ellefu konur.
Val á körfuknattleikskonu ársins 2023:
1. Sara Rún Hinriksdóttir
2. Thelma Dís Ágústsdóttir
3. Isabella Ósk Sigurðardóttir
Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð:
Ásta Júlía Grímsdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Ísold Sævarsdóttir, Jana Falsdóttir, Tinna Guðrún Alexandersdsóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.
Sara Rún Hinriksdóttir · Cadi La Seu (A.E Sedis), Spáni
Sara Rún er „Körfuknattleikskona ársins“ árið 2023 fjórða árið í röð. Sara Rún sem er uppalin með Keflavík, lék í háskólaboltanum í Bandaríkjunum samhliða námi áður en hún lék eitt tímabil með Haukum hér heima. Hún hefur síðan leikið með liðum í Rúmeníu og á Ítalíu við góðan orðstír. Sara Rún átti gott tímabil í fyrra með liði sínu á Ítalíu, Faenza Basket Project í Serie A. Þar var Sara Rún í veigamiklu hlutverki og frammistaða hennar varð til þessa að hún gerði samning við lið Cadi La Seu sem leikur í efstu deild á Spáni, en liðið keppir einni einnig í FIBA EuroCup Women. Sara Rún átti við smávægileg meiðsl að stríða í upphafi tímabils sem varð til þess að hún var fjarverandi með landsliðinu í nóvember í fyrstu leikjunum liðsins í undankeppni EM kvenna 2025, en hún er nú farin af stað með félagsliði sínu á Spáni og verður spennandi að sjá hvernig þeim vegnar á tímabilinu.
Sara Rún hefur verið burðarás íslenska kvennalandsliðsins að undanförnu og verið að leiða liðið að í hverjum leiknum á fætur öðrum í ýmsum tölfræðiþáttum og verið í stóru hlutverki í vörn og sókn. Hún og undirstrikaði það rækilega í fræknum sigri lok síðustu undankeppni gegn Rúmeníu, þar sem hún skoraði 33 stig og setti um leið íslenskt landsliðsmet leikmanns í einum leik í sögu KKÍ karla og kvenna landsliða. Sara Rún mun án efa vera áfram einn af burðarstoðum íslenska liðsins á komandi árum í ungu og efnilegu liði Íslands þar sem reynsla hennar mun skipta sköpum í komandi leikjum liðsins.
Thelma Dís Ágústsdóttir · Keflavík
Thelma Dís snéri aftur heim eftir nám í Bandaríkjunum þar sem hún lék vel með Ball State University í háskólaboltanum við góðan orðstír. Þar átti hún stóran þátt í velgengni liðs síns og var til að mynda valin í úrslitakeppni þriggja-stiga skotkeppni NCAA-kvenna deildarinnar á síðasta ári þar sem hún komst í úrslitin. Thelma Dís hefur leikið vel með Keflavík í Subway-deildinni þar sem lið hennar hefur farið vel af stað og Thelma Dís vel og verið meðal bestu leikmanna liðsins og er talin ein besti skotmaður deildarinnar með réttu.
Með landsliðinu leiddi Thelma Dís íslenska liðið í stigum skoruðum og var með frábæra skotnýtingu í landsleikjunum í nóvember í undankeppni EM gegn Rúmeníu og Tyrklandi. Thelma Dís skilað 18 stigum að meðaltali, 2.5 stoðsendingum og var með lang hæsta framlagið, 21 framlagsstigi að meðaltali í leikjunum tveim og er Thelma Dís klárlega framtíðar leikmaður íslenska liðsins á komandi árum.
Isabella Ósk Sigurðardóttir · Panserraikos B.C, Grikklandi
Isabella Ósk, sem lék á síðasta tímabili með Njarðvík, hóf leiktíðina í ár sem atvinnumaður í Króatíu áður en hú færði sig yfir til Grikklands þar sem hún leikur nú með Panserraikos. Isabella Ósk hefur leikið mjög vel og verið að skila háum tölum í skoruðum stigum og fráköstum fyrir sitt lið þar sem hún er lykil leikmaður.
Isabella Ósk leiðir íslenska landsliðið í fráköstum að meðaltali eftir fyrstu leikina í undankeppni EM og er þriðja í framlagsstigum og er þar af leiðandi mjög mikilvæg í ungu íslensku liði, þar sem hörð barátta er undir körfunni og gegn stórum leikmönnum andstæðingana, og þar er hún mikilvægur hlekkur í liðinu. Isabella Ósk verður áfram mikilvægur leikmaður íslenska liðsins í komandi verkefnum.
Val á körfuknattleikskarli ársins 2023:
1. Elvar Már Friðriksson
2. Tryggvi Snær Hlinason
3. Ægir Þór Steinarsson
Aðrir sem fengu atkvæði í stafrófsröð:
Hilmar Smári Henningsson, Jón Axel Guðmundsson, Kári Jónsson, Orri Gunnarsson, Pétur Rúnar Birgisson og Sigtryggur Arnar Björnsson.
Elvar Már Friðriksson · PAOK B.C, Grikklandi
Elvar Már er að hljóta nafnbótina „Körfuknattleiksmaður ársins“ í þriðja sinn og þriðja árið í röð. Elvar Már lék virkilega vel á síðustu leiktíð fyrir stórlið Rytas Vilnius í Litháen en eftir tímabilið tryggði annað stórveldi sér starfskrafta hans fyrir komandi tímabil, PAOK í Grikklandi. Þar hefur Elvar stýrt leik þeirra með glæsibrag bæði í deild og í FIBA Basketball Championship League. Þar varð hann á dögunum einungis þriðji leikmaðurinn í sögu keppninnar, og sá fyrsti síðan 2017, til að ná tvöfaldri-þrennu í leik sem vakti athygli. Elvar Már hefur leikið mjög vel í síðustu leikjum og er einn af mikilvægustu leikmönnum síns liðs og hefur slegið í gegn hjá stuðningsmönnum PAOK. Elvar Már leiðir sitt lið bæði í stigum skoruðum og stoðsendingum þegar tveir leikir eru eftir af árinu og er í þriðja sæti yfir flestar stoðsendingar í grísku deildinni að auki.
Með íslenska landsliðinu hefur Elvar Már verið leiðtogi liðsins í gegnum langa forkeppni og undankeppni að HM 2023 sem lauk í febrúar og hefur hann tekið þátt í öllum leikjum liðsins á undanförnum árum fyrir utan einn leik vegna meiðsla og heilt yfir verið meðal bestu manna liðsins í hverju verkefninu á fætur öðru. Hann átti stóran þátt í því að koma liðinu inn í riðlakeppni HM og svo þaðan áfram í aðra umferð í þeirri keppni sem var stórt afrek. Elvar Már átti mjög góða leiki fyrir Ísland á árinu og var Elvar Már hreint óstöðvandi í sóknarleik Íslands sem gerði andstæðinga Íslands ráðþrota í hverjum leiknum á fætur öðrum. Elvar Már leiddi til að mynda alla undankeppni HM 2023 í stigum í leik með 186 stig eða 20.7 stig að meðaltali í níu leikjum og var annar heilt yfir með 89% vítanýtingu. Að öðrum leikmönnum ólöstuðum átti hann einna stærstan þátt í því að íslenska liðið var komið í tækifæri til að fara á HM og varð aðeins einu stigi frá því að fara alla leið á sjálft lokamót HM. Framundan eru leikir í undankeppni EM 2025 og þar mun Elvar Már vera sá sem liðið treystir á til að koma liðinu í þriðja sinn á EM, EuroBasket 2025.
Tryggvi Snær Hlinason · Bilbao Basket, Spánn
Tryggvi Snær er á sínu áttunda ári sem atvinnumaður í ACB, deildinni á Spáni sem talin er sú sterkasta í Evrópu. Tryggvi endaði síðustu leiktíð með sitt fjórða tímabil með Basket Zaragoza og gerði fyrir þetta tímabil samning við nágranna liðið Bilbao Basket. Tryggvi Snær hefur verið að byrja leiktíðina mjög vel fyrir sitt nýja félag og verið lykilmaður liðsins og spilað stórt hlutverk í vörn og sókn.
Þá hefur Tryggvi Snær sýnt það og sannað hversu mikilvægur hann er fyrir íslenska landsliðið en hann hefur leikið gríðarlega vel og blómstra í vörn og sókn sem er stór þáttur í velgengni liðsins að undanförnu. Hann hefur verið að bæta sinn leik á hverju ári og skapar mikin usla í sókn og vörn þar sem hann hjálpar liðinu gríðarlega að auki þar sem ógn hans í kringum körfuna býr til mikil vopn fyrir aðra leikmenn á vellinum. Með landsliðinu var hann framlagshæstur allra í undankeppni HM 2023 með 22.8 framlagsstig og leiddi liðið í fráköstum að meðaltali í leik, 10.0. Auk þess var hann með 15.1 stig að meðaltali í leik og þá leiddi Tryggvi Snær alla undankeppni HM í vörðum skotum, var með 22 varin skot í 10 leikjum. Þá varð hann einnig annar yfir fjölda tvenna en hann var með fjórar tvennur (+10 stig, +10 fráköst). Tryggvi verður áfram lykilmaður á næstu árum fyrir Ísland og verður mikilvægur þáttur í velgengi liðsins í komandi undankeppni fyrir EM sem hefst í febrúar.
Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan
Ægir Þór, leikmaður Stjörnunnar, sem lék hefur á Spáni síðastliðin fjögur tímabil á þangað til í haust þegar hann kom aftur til síns gamla félags Stjörnunnar er þriðji í valinu á körfuknattleiksmanni ársins. Ægir Þór hefur verið einn mikilvægasti leikmaður sinna liða á undanförnum árum en varnar- og sóknarhæfileikar Ægis Þórs eru gulls ígildi fyrir hvert lið en hans helsta vopn að atast í bakvörðum andstæðinganna og stýra hröðum sóknarleik sinna liða upp völlinn og þar standast fáir Ægir Þór snúning. Að auki hefur Ægir Þór stýrir sóknarleik sinna liða eins og sannur herforingi milli þess að skora sjálfur og mata liðsfélaga af stoðsendingum. Í deildinni hérna heima er Ægir áttundi stigahæsti leikmaður deildarinnar fyrir áramót og þriðji stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.
Ægir Þór hefur verið einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins í mörg ár og verið fyrirliði í fjölmörgum leikjum að undanförnu og verið sannur leiðtogi hópsins innan sem utan vallar. Ægir Þór með landsleikjahæstu mönnum núverandi leikmanna Íslands og á stóran þátt í velgengi liðsins að undanförnu þar sem Ægir Þór hefur tekið þátt í öllum leikjum Íslands á síðast liðnum árum og hjálpað liðinu við að komast áfram í undankeppni HM í síðustu landsliðsgluggum og eins langt áfram í annari umferð þeirrar keppni eins og raun bar vitni. Hann verður einn af lykil bakvörðum landsliðsins í komandi verkefni að leika í undankeppni EM 2025.
Körfuboltafólk ársins frá árinu 1998:
1998: Helgi Jónas Guðfinnsson og Anna María Sveinsdóttir
1999: Herbert Arnarson og Guðbjörg Norðfjörð
2000: Ólafur Jón Ormsson og Erla Þorsteinsdóttir
2001: Logi Gunnarsson og Kristín Björk Jónsdóttir
2002: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2003: Jón Arnór Stefánsson og Signý Hermannsdóttir
2004: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2005: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2006: Brenton Birmingham og Helena Sverrisdóttir
2007: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2008: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2009: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2010: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2011: Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir
2012: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2013: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2014: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2015: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2016: Martin Hermannsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir
2017: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2018: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2019: Martin Hermannsson og Helena Sverrisdóttir
2020: Martin Hermannsson og Sara Rún Hinriksdóttir
2021: Elvar Már Friðriksson og Sara Rún Hinriksdóttir
2022: Elvar Már Friðriksson og Sara Rún Hinriksdóttir
2023: Elvar Már Friðriksson og Sara Rún Hinriksdóttir
Oftast valin Körfuboltamaður og Körfuboltakona ársins:*
12 Jón Arnór Stefánsson (2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2012, 2013, 2014, 2015)
12 Helena Sverrisdóttir (2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2019)
5 Martin Hermannsson (2016, 2017, 2018, 2019, 2020)
4 Jón Kr. Gíslason (1987, 1989, 1992, 1993)
4 Sara Rún Hinriksdóttir (2020, 2021, 2022, 2023)
3 Elvar Már Friðriksson (2021, 2022, 2023)
3 Kristinn Jörundsson (1973, 1975, 1977)
2 Hildur Björg Kjartansdóttir (2017, 2018)
2 Jón Sigurðsson (1976, 1978)
2 Valur Ingimundarson (1984, 1988)
2 Guðmundur Bragason (1991, 1996)
2 Anna María Sveinsdóttir (1994, 1998)
2 Birna Valgarðsdóttir (2002, 2004)
*Valið hefur verið tvískipt síðan 1998 en frá 1973 til og með 1997 var aðeins valin einn aðili, karl eða kona, en síðan þá hafa verið valin Körfuknattleiksmaður og Körfuknattleikskona ársins.
#korfubolti