23 jún. 2023Ný stjórn FIBA Europe kom saman til fyrsta fundar í dag í Ljubljana í Slóveníu. Hannes S. Jónsson framkvæmdarstjóri KKÍ var skipaður þar í embætti varaforseta sambandins. Eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar var að taka fyrir tillögu Jorge Garbajosa forseta FIBA Europe að þrem varaforsetum sambandsins og er Hannes einn þeirra þriggja, hinir varaforsetanir eru Matje Erjavec frá Slóveníu og Carmen Tocala frá Rúmeníu. Sem varaforseti mun Hannes einnig sitja í framkvæmdaráði FIBA Europe en framkvæmdaráð skipa níu manns, forseti, varaforsetar, gjaldkeri og fjórir stjórnarmenn. Stjórn FIBA Europe er skipuð 25 einstaklingum. Stjórn FIBA Europe er kjörin til 2027 og mun Hannes sinna störfum varaforseta út starfstímabil stjórnarinnar.
Skipun Hannesar í embætti varaforseta FIBA Europe er mikil viðurkennig fyrir það starf sem KKÍ og íslenskur körfubolti hefur unnið á síðustu árum sem og persónuleg viðurkennig til Hannesar fyrir hans störf í alþjóðlegum körfubolta.
Þá var Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, formaður KKÍ, einnig kjörin í fastanefnd FIBA Europe í „Youth Commission“ (Unglinganefnd) til næstu fjögurra ára.
Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir formaður KKÍ:
„Fyrir okkur hjá KKÍ er þetta mikil viðurkennig á því alþjóðlega starfi sem við höfum unnið síðustu ár. Við viljum vera þarna, hafa áhrif og láta rödd okkar heyrast. Við höfum unnið markvisst með norðurlandaþjóðunum undanfarin ár í því að koma á framfæri hlutum sem kannski stóru þjóðirnar gleyma stundum. Við trúum því að nýr forseti og stjórn hafi þá yfirsýn sem þarf til að allir fái rödd og tekið sé tillit til sérstöðu landanna. Hannes mun vinna ötullega að því að koma okkar sýn á framfæri, við er afar stolt og ánægð að Hannes sé nú vararforseti FIBA Europe“.
Hannes S. Jónsson framkvæmdastjóri KKÍ og varaforseti FIBA Europe:
„Ég er mjög þakklátur fyrir það mikla traust sem Jorge ber til mín, KKÍ og Íslands með þessari útnefningu. Ég þurfti aðeins að hugsa málið þegar Jorge nefndi þetta við mig, ég vildi ræða þetta við fjölskylduna og samstarfsfélaga mína á skrifstofu og í stjórn sambandsins. Þetta er stórt tækifæri til að koma enn meira á framfæri þeim skoðunum sem við höfum á alþjóðlegum körfubolta og við hjá KKÍ höfum unnið eftir ásamt Norðurlöndunum. Ég mun m.a. beita mér fyrir meira jafnrétti á milli kynjanna, að keppnisfyrirkomulag kvennalandsliðanna sé eins og hjá körlunum, meira fjármagn fari frá FIBA Europe og FIBA til aðildarlandanna. Það verður að finna lausn á þeim samskipta- og skipulagsvanda sem er á milli EuroLeague og FIBA, hér verða menn að leggja sínar stöður til hliðar og hugsa númer eitt um körfuboltann í Evrópu. Við þurfum að vinna í því að koma á uppeldisbótum þegar efnilegir leikmenn frá minni félögum fara á milli. Mikið væri gott ef framfaraskref í þessum málum sem ég nefndi yrðu mikil á næstu fjórum árum í evrópskum og alþjóðlegum körfubolta“.