21 maí 2023

FIBA Europe hélt ársþing sitt um helgina og fór það fram í München í Þýskalandi. Þingið sækja formenn og framkvæmdastjórar Evrópulandanna ásamt starfsfólki FIBA Europe. Fyrir lágu kosningar í stjórn og nefndir og til formanns FIBA Europe en hin tyrkneski Turgay Demerel, sem tók við af Ólafi Rafnsyni okkar á sínum tíma, hefur verið formaður undanfarin ár og lét nú af embætti.

Ísland getur verið stolt því Hannes S. Jónsson var kjörinn í stjórn. Hann fékk mjög góða kosningu eða 43 atkvæði af þeim 50 þjóðum sem kusu. Að auki náðu 2 fulltrúar Norðurlandanna og Baltic þjóðanna líka í stjórn, Kieo Khui frá Eistlandi og Elisabeth Engell frá Svíþjóð. Þetta er mjög ánægjulegt fyrir KKÍ og Norðurlöndin að eiga fulltrúa sem tala máli landanna.

Formaður spænska sambandins og fyrrum landsliðsmaður spænska landsliðsins, Jorge Garbajosa, var kjörinn forseti FIBA Europe með afgerandi kosningu. Hann fer inn í nýtt tímabil með nýjar hugmyndir og áherslur sem lofa góðu fyrir evrópskan körfuknattleik.

Einnig sýndu Norðurlandaþjóðirnar, Baltic þjóðirnar, Pólland og Holland stuðning við úkranísku þjóðina með því að ganga úr salnum þegar fulltrúi Belarús hélt ræðu sem formaður einnar fastanefnda FIBA Europe. Áður en fundarhöldum lauk þá hélt fulltrúi Eistlands ræðu fyrir hönd þessara þjóða um mikilvægi þess að styðja við Úkraínu og úkraínsku þjóðina og meðan stóðu fulltrúar þessara landa upp til að sýna stuðning.

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, formaður KKÍ, skoraði einnig á fleiri konur að bjóða sig fram, taka þátt og láta í sér heyra. Nú eru þrjár konur sem forsetar körfuknattleikssambanda í Evrópu.

Á myndinni hér að neðan eru Andreas Zaklis framkvæmdarstjóri FIBA World, Susanne Jidesten forseti sænska sambandsins og Carmen Tocala forseti rúmenska sambandsins ásamt Guðbjörgu og svo fulltrúar Íslands þau Hannes S. Jónsson og Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir ásamt nýkjörnu forseta FIBA Europe Jorge Garbajosa.