29 apr. 2023
Mótanefnd KKÍ hefur staðfest keppnisdagatal KKÍ fyrir keppnistímabilið 2023-2024. Dagatalið hefur einnig verið kynnt á fundi með stjórn KKÍ. Dagatalið er aðgengilegt á heimasíðu KKÍ undir Mótamál > Leikir og úrslit > Keppnisdagatal 2023-2024. Keppnisdagatalið nær yfir keppni allra deilda og flokka.
Vert er að vekja athygli á nokkrum atriðum í dagatalinu.
- Skráning liða í mót er á ábyrgð félaga. Sömuleiðis er það á ábyrgð félaga að manna liðin með löglegum hætti.
- 11. flokkur stúlkna er ekki lengur flokkur í keppnishaldi KKÍ.
- Ungmennaflokkur kvenna mun keppa í 1. deild kvenna.
- Keppnisdagatalið gerir ráð fyrir þeim leikjafjölda sem tiltekinn er í reglugerð. Í 1. deild kvenna mun leikjafjöldi ákvarðast af fjölda þátttökuliða.
- Deildarkeppni yngri flokka hefst í byrjun september 2023, vinsamlegast gerið ráð fyrir því við ykkar skipulag.
- Þátttökulið í deildarkeppni yngra flokka skulu almennt klára um helming leikja sinna fyrir áramót og hinn helming eftir áramót. Mótanefnd mun ekki samþykkjar færslur í drögum þar sem munar meira en tveimur leikjum í leikjafjölda milli hausts og vors.
- Leikin verður umferð milli jóla og nýárs í úrvalsdeild karla og úrvalsdeild kvenna.
- Lokaumferð Subway deildar karla er fyrirhuguð á skírdag.
- Úrslitakeppnir Subway deildar kvenna og 1. deildar karla lengjast vegna samþykkta Körfuknattleiksþings. Sömuleiðis lengir þetta úrslitakeppni Subway deildar karla, þar sem ekki verður hægt að láta úrslitakeppnir Subway deilda skarast.
- Vakin er athygli á því að leikdagar í úrslitakeppni eru ekki staðfestir og geta tekið breytingum.
- VÍS bikarúrslit 2024 verða í mars. Undanúrslit kvenna verða leikin á þriðjudegi, undanúrslit karla á miðvikudegi og úrslitaleikir á laugardegi. Áætlað er að úrslitaleikir bikarsins verði leiknir kl. 17:00 og 20:00, en það getur breyst.
- VÍS bikarúrslit yngri flokka munu fara fram fimmtudaginn 21., föstudaginn 22., laugardaginn 23. og fyrri hluta sunnudagsins 24. mars 2024.
- Skráningarrammi yngri flokka er tiltekinn fyrir hverja umferð MB10 og MB11 ára, og 7. og 8. flokk. Hægt verður að bæta við eða fækka liðum innan þess skráningarramma.
- Skráningu í fyrstu umferð 7. og 8. flokks lýkur snemma í september. Þá er stutt í fyrstu keppnishelgi, en lið verða að gera ráð fyrir því að þurfa að ferðast strax í fyrstu umferð.
- Félög sem skrá sig til leiks í 7. og 8. flokki eiga að gera ráð fyrir því að taka eitt fjölliðamót fyrir hvert lið sem skráð er til keppni.
- Leikin verða undanúrslit í 1. deildum 9. og 10. flokka helgina 4.-5. maí.
- Leikin verða undanúrslit á heimavelli þess liðs sem ofar er í deildarkeppni 11., 12. og ungmennaflokka skv. dagatali.
- Leiknar verða úrslitaseríur um Íslandsmeistaratitil í 1. deildum 11., 12. og ungmennaflokka, þar sem vinna þarf tvo leiki.
- Úrslitahelgi yngri flokka verður leikin 17.-20. maí 2022. Aðeins úrslitaleikir verða leiknir þessa helgi. Leikið verður í öllum deildum 9. og 10. flokka og neðri deildum 11., 12. og ungmennaflokka.
- Í neðri deildum 9., 10., 11., 12. og ungmennaflokka verða einungis leiknir úrslitaleikir, þar sem tvö efstu lið hverrar deildar mætast.
- Skráningu í 3. deild karla lýkur 4. september.
- Æfingatímabil yngri landsliða eru áætluð í dagatalinu.
Bent er á að þegar kemur að því að raða helgarleikjum meistaraflokka niður, þá verður þeim fundinn staður að kvöldi til svo hægt verði að koma leikjum yngri flokka og fjölliðamótum fyrir fyrr um daginn.
ÚRSLIT YNGRI FLOKKA
Úrslit minnibolta 10 ára, 11 ára, 7. flokks og 8. flokks eru leikin samkvæmt reglugerð. Úrslitakeppni 9. flokks og eldri, þ.e. þeirra flokka sem leika í deildarkeppni verður öðruvísi háttað.
1. deildir deildarkeppni yngri flokka
Fjögur efstu lið 1. deilda fara í úrslitakeppni.
Undanúrslit 1. deilda 9. og 10. flokks verða leikin helgina 4.-5. maí. Allir undanúrslitaleikirnir í þessum tveimur aldursflokkum fara fram á sama leikstað.
Undanúrslit 1. deilda 11., 12. og ungmennaflokka verða leikin á heimavelli þeirra liða sem ofar eru í töflunni, þ.e. liða 1 og 2. Aðeins er leikinn einn undanúrslitaleikur í hvorri viðureign í fyrrgreindum flokkum.
Í 9. og 10. flokki verður leikinn úrslitaleikur 17.-20. maí.
Í 11., 12. og ungmennaflokkum verða leiknar úrslitaseríur þar sem vinna þarf tvo leiki til að hljóta sæmdarheitið Íslandsmeistari.
Neðri deildir deildarkeppni yngri flokka
Í neðri deildum allra flokka fara tvö efstu lið hverrar deildar í úrslit, þ.e. engin undanúrslit eru í neðri deildum. Þau lið leika úrslitaleik um sigur í viðkomandi deild og réttinn til að færast upp í deildina fyrir ofan.
SKRÁNING ÞÁTTTÖKULIÐA
Opnað verður fyrir skráningu þátttökuliða í efstu tvær deildir karla og kvenna fyrir tímabilið 2023-2024 þann 25. maí 2023. Þetta á við um úrvalsdeildir karla og kvenna, 1. deildir karla og kvenna ásamt VÍS bikarkeppni karla og kvenna. Skráning stendur til klukkan 23:59 þann 31. maí 2023. Félög þurfa að vera skuldlaus við KKÍ til að skrá lið til keppni. Þau ungmennaflokkslið sem ætla að skrá sig til leiks í 1. deild kvenna þurfa að skrá sig fyrir 1. júní.
Þau lið sem eru í 2. eða 3. deild karla en hafa hug á að keppa í VÍS bikarkeppni KKÍ tímabilið 2022-2023 þurfa að skrá sig til leiks í þessum skráningarglugga.
Mikilvægt er að allar skráningar skili sér á réttum tíma til þess að vinna við drög geti hafist sem fyrst. Minnt er á að samkvæmt 6. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót, þarf félag að vera skuldlaust við KKÍ þegar skráð er til keppni.
Vakin er athygli á að félög skulu tilkynna þátttöku í Íslandsmót og bikarkeppni sem hér segir:
Fyrir 1. júní (skráning opnar 25. maí)
- úrvalsdeild karla
- úrvalsdeild kvenna
- 1. deild karla
- 1. deild kvenna (þ.m.t. ungmennaflokkur kvenna)
- bikarkeppni meistaraflokka
Fyrir 15. júní (skráning opnar 7. júní)
- 2. deild karla
- ungmennaflokkur karla
- 12. flokkur karla
- 12. flokkur kvenna
- 11. flokkur karla
- 10. flokkur drengja
- 10. flokkur stúlkna
- 9. flokkur drengja
- 9. flokkur stúlkna
- bikarkeppni yngri flokka
fyrir 5. september (skráning opnar 26. ágúst)
- 3. deild karla
Skráning í minnibolta 10 og 11 ára, 7. og 8. flokk verður auglýst sérstaklega.