24 apr. 2023

Skráning á þjálfarananámskeið í maí og júní hefur nú verið opnuð, en í boði eru tvo vönduð þjálfaranámskeið.

Vakin er athygli á því að almenn og mikil ánægja hefur verið meðal þátttakenda í þjálfaranámi KKÍ með námskeiðin. Námskeiðin þykja bæði áhugaverð og fræðandi og telja þátttakendur að sú þekking sem þeir afla sér í gegnum námskeiðin muni nýtast þeim vel í sinni þjálfun. Þátttakendur námskeiða eru sammála um að þeir mæli með námskeiðunum fyrir þá sem hafa áhuga á þjálfun. Það er líka vert að minnast á það að besta leiðin til að þróa leikmenn er að þróa þjálfarana í félaginu. Menntaðir og hæfir þjálfarar fjölga iðkendum, halda þeim lengur og eru ánægðari í starfi, og styðja því kröftuglega við frekari uppbyggingu aðildarfélaga KKÍ.

KKÍ 1A | 19.-21. maí
KKÍ þjálfari 1 skiptist í þrjú námskeið A, B og C. KKÍ 1A er skipt upp í nokkra hluta, Áhersla er lögð á þjálfun minnibolta, byrjenda og barna 12 ára og yngri. Mikil áhersla er lögð á kennslu á helstu grunnþáttum eins og skotum, sendingum, fótavinnu, knattraki og á boltaæfingar. Áhersla er lögð á að kenna yngstu iðkendum grunnþætti í gegnum leiki. Á sunnudegi þá þjálfa þátttakendur eina stöð í úrvalsbúðum KKÍ.

Þátttökugjald fyrir KKÍ 1A er 28.000 kr. ef skráning og greiðsla klárast í síðasta lagi 9. maí, en eftir það hækkar námskeiðsgjald upp í 40.000 kr. Skráning fer fram hér.
 
KKÍ 2 | 1.-3. júní (í samvinnu við Basketball Immersion)
KKÍ þjálfari 2 er kennt í staðnámi dagana 1.-3. júní 2023.
KKÍ 2 námskeið verður haldið í byrjun júní. Námskeiðið verður haldið í samvinnu með Basketball Immersion, sem hafa mikla reynslu af námskeiðahaldi sem þessu og koma með sína sýn inn á námskeiðið. Basketball Immersion er einnig með The Basketball Podcast, sem flestir þjálfarar ættu að þekkja. Námskeiðið snýr að þjálfun barna og þróun ungra og efnilegra leikmanna, ásamt því hvernig við skipuleggjum æfingar og þróum framtíðarleikmanninn. Þetta er námskeið sem þjálfarar ungmenna ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Þeir Chris Oliver og Alex Sarama munu kenna flesta þætti námskeiðsins. Þeir hafa mikla reynslu af námskeiðshaldi um allan heim og hafa námskeiðin hjá þeim vakið mikla athygli og þátttakendur verið mjög ánægðir.
Hægt er að kynnast Chris Oliver betur hérna
Hægt er að kynnast Alex Sarama betur hérna

Námskeiðið verður haldið á höfuðborgarsvæðinu fimmtudag-laugardag. Búið er að opna fyrir skráningu, en fullt námskeiðsgjald er kr. 52.000, en kr. 35.000 ef gengið er frá skráningu og greiðslu eigi síðar en 17. maí. Skráning fer fram hér.