25 mar. 2023

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, flutti að venju ræðu við setningu Körfuknattleiksþing. Í ræðunni fer Hannes yfir ýmsa þætti í starfi KKÍ, ásamt því að líta til sögu Körfuknattleiksþinga. Ræðuna má lesa hér fyrir neðan.


Kæru þingfulltrúar, þingforsetar, forseti ÍSÍ, formaður UMFÍ, aðrir gestir.

Skýrsla stjórnar og nefnda hefur legið fyrir í rúmar tvær vikur, en ég hvet ykkur til að kynna ykkur skýrsluna. Skýrslan spannar síðustu tvö ár og nær yfir allt það helsta í starfi KKÍ þann tíma.

Við undirbúning þessarar ræðu ákvað ég að rifja upp söguna með því að fara í gegnum nokkrar eldri ársskýrslur sambandsins. Það vakti athygli mína við þessa yfirferð að meginstefin eru þau sömu, verkefnin sambærileg og umræðurnar ansi líkar. Það er því vel viðeigandi að nefna nokkur atriði úr þessum ársskýrslum.

  • Það vantar fleiri aðila til að koma að starfi KKÍ, bæði starfsmenn á skrifstofu og sjálfboðaliða. Þetta háir starfinu mikið.
  • Sambandið er vanfjármagnað, ríkisvaldið verður að gera betur, það verður að styðja betur fjárhagslega við starfsemi skrifstofu og landsliðsstarfið.
  • Félögin þurfa að fá meiri stuðning og samtal við KKÍ.
  • Félögunum finnst þau vera að greiða of mikið til KKÍ.
  • Félögin telja KKÍ vera með of miklar kröfur til sín.

Já, þegar öllu er á botninn hvolft þá eru verkefnin okkar, áskoranirnar og tækifærin þau sömu ár eftir ár.

Það sem sker sig þó úr við lestur þessara gagna er að hreyfingin okkar hefur stækkað og vaxið mjög mikið á síðustu árum og áratugum, enda körfubolti fyrir þó nokkru orðinn ein af stærstu og vinsælustu íþróttagreinum landsins. Athyglin er mikil, almenn umræða mikil og skoðanir eru miklar og margbreytilegar. Okkur sem förum fyrir hreyfingunni þykir miður að stundum virðist sem skoðanir séu settar fram án þess að mál séu ígrunduð frá öllum hliðum. Þrátt fyrir að ákvarðanir eða staðreyndir séu útskýrðar þá virðist það stundum engu máli skipta. Eins og við þekkjum því miður víða úr íslenskri þjóðfélagsumræðu er það of oft þannig að staðreyndir eru aukaatriði þegar fólk tjáir sig við lyklaborðið eða á kaffistofunni.

Líkt og í íþróttinni allri hefur orðið mikill vöxtur í landsliðsstarfinu okkar á síðustu tíu árum. Árangurinn hefur verið eftirtektarverður um heim allan og með betri árangri þá verða kröfur FIBA, FIBA Europe og samfélagsins meiri. Ofan á það hefur FIBA aukið verulega kröfur sínar til aðildarlanda sinna og því betri árangri sem landið nær því meiri verða kröfurnar.

Árið 2022 var besta landsliðsár okkar í sögulegu samhengi þegar úrslit og árangur allra okkar landsliða eru tekin saman.

Karlalandsliðið átti möguleika á að komast á HM þar til á síðustu sekúndum lokaleiks okkar í riðlakeppninni, þrátt fyrir þriggja stiga stigur í útileik fyrir framan 10.500 stuðningsmenn heimaliðsins. Þetta var ansi sárt á því augnabliki og er ennþá en mikið er ég stoltur af þessum frábæra árangri okkar. Góðir sigrar á sterkum þjóðum unnust og í fyrsta sinn í sögunni unnu strákarnir okkar sér inn þátttökurétt til að komast í keppni um sæti á Ólympíuleikunum, ásamt því að tryggja sér sæti í undankeppni EM 2025, en eingöngu 32 lönd í Evrópu öðlast þann rétt. Það er skýrt markmið okkar að komast á EuroBasket 2025.

Kvennalandsliðið okkar vann góðan sigur í nóvember, þann fyrsta í nokkur ár í undankeppni Evrópukeppninnar. Greinilegar framfarir voru í leik liðsins í gegnum undankeppnina, jafnvel þótt sterka leikmenn hafi vantað. Þessi frammistaða gefur ástæðu til bjartsýni til framtíðar, en við erum með mjög áhugavert og ungt lið sem spennandi verður að fylgjast með á næstu árum. Þar er markmiðið að komast á EuroBasket 2027.

Yngri landsliðin stóðu sig vel í sínum Evrópukeppnum. 20 ára landslið karla vann sig upp í A deild fyrir verkefni komandi sumars og er þá í hópi 16 bestu þjóða Evrópu. Bæði U16 og U18 lið drengja voru ekki langt frá því að vinna sig upp um deild, auk þess sem U16, U18 og U20 lið stúlkna og kvenna náðu sínum besta árangri frá upphafi, heilt yfir. Því miður er það svo að þeir leikmenn sem valdir eru í lokahópa þurfa að greiða alltof háar fjárhæðir til að taka þátt í þessum verkefnum og spila landsleiki fyrir hönd Íslands. KKÍ hefur ávallt reynt að halda þessum kostnaði eins lágum og hægt er, en án frekari framlaga frá ríkisvaldinu er ekki hægt að draga úr greiðsluþátttöku yngri landsliðsleikmanna okkar. Okkur þykir það dapurt að leikmenn landsliða Íslands, óháð íþrótt, þurfi að leggja í mikil útgjöld til að taka þátt. Við hjá KKÍ og öðrum sérsamböndum erum í reglulegu samtali um þessi mál við forystu ÍSÍ og ríkisvaldið. Ég vil þó nota þetta tækifæri og brýna ríkisvaldið til að stíga fast til jarðar hér og jafna aðstöðu okkar ungu íþróttamanna strax, svo ekki komi til þess að velja þurfi í landslið eftir efnahag.

Landsliðsstarfið okkar er í mikilli hættu eins og staðan er í dag. Það er algjörlega óviðunandi að vera í þeirri stöðu í boði stjórnar og forystu ÍSÍ. Eftir þetta langbesta landsliðsár í sögu KKÍ gerist það að stjórn ÍSÍ ákveður, að tillögu afrekssjóðs ÍSÍ, að færa KKÍ úr A afrekssambandi niður í B. Þessi ákvörðun veldur okkur hjá KKÍ, sem og allflestum í körfuboltahreyfingunni gríðarlegum vonbrigðum. KKÍ hefur um árabil talað fyrir því formlega sem og óformlega að breyta þurfi reglugerð um afrekssjóð. Það hefur verið fyrir daufum eyrum. Því miður þurfti ákvörðun sem þessa til að hlustað yrði á gagnrýni KKÍ. ÍSÍ hefur nú hafið vinnu við breytingu reglugerðarinnar í samstarfi við sérsamböndin. Reyndar var því lofað í bréfi skrifað í apríl 2020 frá ÍSÍ til KKÍ að þessu yrði breytt áramótin þar á eftir, en því miður er samt staðan svona. Ekki er enn ljóst hvert þessi vinna við nýja reglugerð leiðir okkur, en miðað við samtöl okkar við forystu ÍSÍ þá má búast við breytingum í þá átt sem við höfum talað fyrir. Spurningin er bara hvort stjórn og forysta ÍSÍ taki sér of langan tíma í þessa vinnu fyrir okkur í körfuboltanum. Að óbreyttri reglugerð stendur KKÍ frammi fyrir því að þurfa að endurskoða þátttöku karla- og kvennalandsliða sambandsins í undankeppnum FIBA 2023-2027. Undankeppnir EM 2025 hefjast næsta haust og með þátttöku þar skuldbindur KKÍ sig einnig til að taka þátt í undankeppni fyrir HM karla 2027, en sú undankeppni hefst á haustdögum 2025. Undankeppnir HM kvenna eru með öðru sniði. Að óbreyttu er ljóst að KKÍ mun ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að senda liðin til keppni. Allar áætlanir í þessum efnum eru því í uppnámi.

Ég og við hjá KKÍ treystum orðum forseta ÍSÍ um að þetta verði lagað og hvetjum ÍSÍ til að klára málið sem allra allra fyrst. 

KKÍ hefur barist duglega fyrir því að hér rísi ný þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir. Sú vinna er farin að skila árangri, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að þjóðarhöllin mun rísa og undirbúningsvinna hefur gengið vel. Áfram þarf þó að vinna kröftuglega að málinu, enda nauðsynlegt fyrir afreksstarf KKÍ að hér rísi íþróttahús sem uppfylli kröfur FIBA til leikja og nýtist jafnframt sem æfingahúsnæði fyrir landsliðin. Einnig þarf að huga að því í þessari vinnu að félögin hér í Laugardalnum eignist sína aðstöðu og að eitt af okkar félögum Ármann sé ekki að missa æfingatíma nánast í hverri viku, mánuð eftir mánuð. Formaður og varaformaður KKÍ taka virkan þátt í þessari vinnu með ríkisvaldi, borg og öðrum frá íþróttahreyfingunni.

Í þessu sambandi þá langar að mig að nota tækifærið og þakka aðildarfélögum okkar og þeim sveitarfélögum fyrir alla þá aðstoð ykkar við að hýsa landsliðin, því án hjálpar ykkar væri ekki mikið um æfingar landsliðanna.
Eins og ég kom að áðan þá eru gerðar miklar kröfur til okkar frá FIBA. Mikil vinna, tími skrifstofu og forystu KKÍ fer í vinnu og samskipti við FIBA og FIBA Europe. Með hverju ári styður FIBA fjárhagslega betur við sín aðildarsambönd en betur má ef duga skal og höldum við áfram ótrauð að vinna í auknum fjárhagslegum stuðningi til KKÍ og aðildarlandanna.

Í ljósi árása Rússlands með stuðningi Hvíta Rússlands hafa körfuknattleikssambönd Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Póllands sent frá sér nokkrar yfirlýsingar til FIBA, FIBA Europe og Alþjóða Ólympíunefndarinnar. Skoðun KKÍ og þessara landa er sú að Rússar og Hvít-Rússar eigi ekki að fá leyfi til að taka þátt í alþjóðlegum körfuknattleik eða öðrum íþróttum, hvorki sem keppendur né starfsmenn, og útiloka beri þá frá stjórnum og sem embættismenn alþjóðlegra íþróttasambanda þar til árásum Rússa linnir og friður kemst á. Einnig hafa Ólympíusambönd landanna ásamt ríkisstjórnum þessara landa sent frá sér svipaðar yfirlýsingar.

Það eru okkur vonbrigði að hafa ekki náð að ganga frá samkomulagi við KKDÍ núna í vetur. KKÍ og samninganefndir KKDÍ hafa lagt talsverða vinnu í að finna sameiginlegan flöt sem dómarar og hreyfingin öll getur sætt sig við. Okkur er ljóst að ekki verður lengra komist án beinnar aðkomu félaganna, en mynda þarf nefnd formanna til að setjast niður með KKDÍ. Við vonum að hægt verði að klára málið sem fyrst í góðri sátt.

Við öll eigum að hafa skoðanir á starfinu, við öll eigum að vinna af heilindum fyrir okkar félag eða samband, við eigum að tala máli okkar sambands og félags. Það mikilvægasta er þó að gera það málefnalega og án þess að ráðast á ákveðnar persónur. Þið í félögunum okkar eigið og megið hafa skoðun á því sem KKÍ er að gera, en komið endilega til okkar og ræðið málin. Ef samtölin koma ekki til okkar, þá getum við hjá sambandinu ekki brugðist við og útskýrt málin.

Vegna mikilla anna og undirmönnunar höfum við hjá KKÍ því miður orðið að minnka samskiptin við félögin okkar í hina almenna spjalli um daginn og veginn, það spjall er svo dýrmætt því þrátt fyrir að við séum öll að sinna körfubolta þá er hvert og eitt félag með sín verkefni sem ganga vel og önnur sem ganga ekki eins vel og þá er mikilvægt að KKÍ sé með ykkur í þessu spjalli. Hér verðum við í forystu KKÍ að gera betur.

Staða körfuboltans er sterk á Íslandi í dag. Við flest öll í hreyfingunni erum meðvituð um góða stöðu körfuboltans. Körfubolti er hópíþrótt, ekki bara á leikvellinum heldur einnig utan hans og við eigum ávallt að vera meðvituð um að gera betur saman sem heild.

Málefni erlendra leikmanna eru enn einu sinni til umræðu. Samt erum við einhvern veginn öll orðin þreytt á þessari umræðu sem lifir ár eftir ár og þing eftir þing. Það eru eðlilega margar skoðanir í þessu máli. Það er okkar verkefni hér á þinginu að ræða málin af kurteisi og rökfestu, en til þess þurfum við að bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Við þurfum að sameinast um lausnir sem henta heildarhagsmunum hreyfingarinnar best. Ykkar ábyrgð er því mikil, því hér eruð þið mætt til að taka ákvarðanir fyrir körfuknattleikshreyfinguna til framtíðar.

Ég vil nota tækifærið hér í ræðu minni til að þakka okkar frábæru samstarfsaðilum fyrir þeirra ómetanlega framlag til körfuboltans í landinu, stjórn og starfsfólki ÍSÍ, stjórn og starfsfólki UMFÍ, öðrum sérsamböndum ásamt íþrótta- og héraðsbandalögum fyrir gott samstarf.

Stjórn, nefndum og starfsfólki okkar þakka ég fyrir virkilega gott samstarf, öll samtölin og rökræðurnar og fyrst og fremst óeigingjarnt starf fyrir KKÍ og körfuboltann í landinu. Það er gæfa körfuboltans hér á landi að eiga svona öflugt fólk sem sinnir störfum sínum af allri þessari ástríðu fyrir íþróttinni okkar, með heildarhagsmuni körfuboltahreyfingarinnar að leiðarljósi.

Kæru þingfulltrúar. Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks KKÍ þakka ég ykkur fyrir öflugt starf á undanförnum árum. Þið ásamt ykkar góða samstarfsfólki vinnið ómetanlega sjálfboðavinnu sem því miður of sjaldan er þakkað fyrir. Ég þakka ykkur af heilum hug fyrir ykkar störf fyrir körfuboltann í landinu.

Ég óska þingheimi gæfu í störfum sínum í dag körfuboltanum til heilla og vona að við eigum hér málefnalegt og gott þing framundan.

Áfram körfubolti.