17 feb. 2023Íslenska karlalandsliðið leikur tvo risastóra landsleiki í landsliðsglugganum sem nú er framundan í næstu viku í undankeppni HM 2023. Landsliðið byrjar á æfingum hér heima á mánudaginn og hefur leik á fimmtudaginn kemur þann 23. febrúar þegar Heims- og Evrópumeistarar Spánar koma í heimsókn í Laugardalshöllina og leika liðin kl. 19:45. Leikurinn verður í beinni á RÚV. Miðasala gengur vel á STUBB appinu og eru áhorfendur hvattir til að tryggja sér miða tímanlega því það stefnir í að verða uppselt á leikinn.

Liðið ferðast svo út á föstudeginum en seinni leikurinn fer fram sunnudaginn 26. nóvember gegn Georgíu og verður hann leikinn í höfuðborginni Tbilisi og hefst hann kl. 16:00 að íslenskum tíma (20:00 í Georgíu) og verður í beinni útsendingu á RÚV2. 

Bæði lið andstæðinga Íslands eru fyrnasterk, Spánn vann fyrri leik liðana í Pamplona í ágúst og urðu svo Evrópumeistarar um þrem vikum síðar. Georgía vann leik liðanna í nóvember 2022 í Laugardalshöll í hörkuleik með þrem stigum. 

Mögulega getur lokaleikur liðsins gegn Georgíu orðið hreinn úrslitaleikur (með +4 stiga sigri) um 3. sætið og þar með lokasætið á HM næsta sumar í riðlinum, en Ítalía og Spánn eru búin að tryggja sér fyrstu tvö sætin í riðlinum.

Craig Pedersen landsliðsþjálfari og aðstoðarþjálfarar hans hafa valið 15 manna æfingahóp fyrir leikina framundan.

Hlynur Bæringsson er kominn aftur í hópinn en  hann varð við ósk landsliðsþjálfarans um að koma að nýju inn í liðið og leika í þessum mikilvægu leikjum við að reyna að tryggja sætið á HM fyrir Ísland í fyrsta sinn.

Íslenski landsliðsæfingahópurinn er skipaður eftirtöldum leikmönnum: (landsleikir í sviga)

Elvar Már Friðriksson · Rytas Vilnius, Litháen (63)
Haukur Helgi Briem Pálsson · Njarðvík (73)
Hilmar Smári Henningsson · Haukar (4)
Jón Axel Guðmundsson · Victoria Libertas Pesaro, Ítalíu (23)
Hlynur Bæringsson · Stjarnan (129)
Kári Jónsson · Valur (30)
Kristinn Pálsson · (15) 
Kristófer Acox · Valur (50)
Ólafur Ólafsson · Grindavík (52)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Hamar (57)
Sigtryggur Arnar Björnsson · Tindastóll (26)
Styrmir Snær Þrastarson · Þór Þorlákshöfn (7)
Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spáni (56)
Þórir G. Þorbjarnarson · Ovideo, Spáni (9)
Ægir Þór Steinarsson · CB Lucentum Alicante, Spáni (78)

Meiddir:
Martin Hermannsson, Valencia á Spáni, og Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík, eru báðir meiddir að þessu sinni og ekki leikfærir.

Þjálfari: Craig Pedersen
Aðstoðarþjálfari: Hjalti Þór Vilhjálmsson og Baldur Þór Ragnarsson
Sjúkrateymi og meðhöndlun: Valdimar Halldórsson, Atlas Endurhæfingur og Guðbrandur Sigurðsson. 
Læknir: Axel Þórisson

#korfubolti