28 nóv. 2022Íslenska kvennalandsliðið hefur nú lokið leik í nóvember verkefninu með tveimur leikjum. Fyrri leikur gluggans var útileikur gegn öflugu liði Spánar sem tapaðist 120:54. Liðið hélt svo heim til Íslands og lék í Laugardalshöllinni loksins eftir langa bið eða frá 2019, sem orsakaðist bæði vegna COVID-19 aðgerða, þar sem leikið var í „Sóttvarnar-Bubblum“ erlendis og eftir framkvæmdir á Höllinni. Það var lið Rúmeníu sem var næsti andstæðingur liðsins í seinni leiknum í gær. Ísland hóf einmitt keppnina gegn þeim ytra í nóvember fyrir ári síðan í upphafi undankeppninnar og því hófst seinni umferðin með heimaleiknum gegn Rúmeníu.
Íslenska liðið átti frábæran leik og sótti 10 stiga sigur, 68:58 sem gerði það að verkum að Ísland fór langt með að tryggja sér 3. sæti riðilsins með innbyrðis stigamun í leikjunum tveim gegn Rúmeníu þar sem fyrri leiknum lauk með sex stiga sigri Rúmeníu. Sara Rún Hinriksdóttir var frábær í leiknum og leiddi íslenska liðið í sókninni og setti um leið nýtt stigamet íslensks landsliðsleikmanns í sögu KKÍ en hún endaði með 33 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar.
Næstu leikir Íslands verða krefjandi leikir heima gegn Spáni og úti gegn Ungverjalandi í febrúar 2023. Þar með mun undankeppninni fyrir EM 2023 ljúka og ný undankeppni hefst í nóvember 2023 fyrir EM 2025.