27 nóv. 2022

Ísland leikur gegn Rúmeníu í dag kl. 16:30 í Laugardalshöllinni. Þetta er seinni leikur nóvember gluggans hjá liðinu en lokaleikirnir tveir verða í febrúar 2023. 

Leikurinn verður í beinni á RÚV.  Miðasala er á STUBB (http://www.stubbur.app) og er hægt að nálgast miða þar rafrænt fram að leik. 

Ísland lék gegn Rúmeníu ytra í fyrsta leik sínum í undankeppninni þar sem Rúmenía hafði sigur í lokin í jöfnum leik 65:59. Stelpurnar okkar eru staðráðnar í að snúa því við og sækja sigur í dag. 

KÖRFUBOLTAHÁTÍÐ FYRIR LEIK: „Stelpur í körfu"
KKÍ, í samvinnu við FIBA Youth Development Fund og Her World Her Rules sjóðina, mun standa fyrir hátíð í Laugardalshöll fyrir stelpur í körfubolta í tengslum við leikinn hjá landsliði kvenna á sunnudaginn kemur 27. nóvember.

Allir krakkar fá bol merktan átakinu „Stelpur í körfu“ á meðan birgðir endast. Hátíðin hefst klukkan 15:00 og stendur til kl. 16:00, en boðið verður upp á ýmsa skemmtilega leiki þar sem hægt er að vinna körfubolta, Subway-bát og Kristal, fara í andlitsmálningu auk þess sem boðið verður upp á tónlistaratriði. Stelpur sem tóku þátt í Íslandsmóti MB11 ára í gær ára fengu boli eins og verða í boði í dag og gildir bolurinn sem aðgönumiði fyrir þær á landsleikinn.

Dagskráin í dag á körfuboltahátíðinni:
🏀 DJ DE LA ROSA
🏀 Andlitsmálun
🏀 Körfuboltaþrautir
🏀 Lukkuhjól með vinningum
🏀 Myndabás með landsliðsleikmanni
🏀 Allar stelpur fá bol á meðan birgðir endast, mætum og styðjum stelpurnar okkar!

#korfubolti #stelpurikorfu