19 ágú. 2022

Íslenska karlalandsliðið leikur tvo landsleiki í næstu viku sem eru þeir fyrstu í annarri umferð undankeppni HM 2023. Landsliðið heldur út á morgun áleiðis til Pamplona á Spáni þar sem fyrri leikur þessa landsliðsglugga fer fram gegn heimamönnum miðvikudaginn 24. ágúst. Liðið verður við æfingar fram að leik ytra.

Leikurinn á Spáni verður í beinni á RÚV2 kl. 19:00 að íslenskum tíma.

Seinni leikurinn er heimaleikur í Ólafssal sem fram fer laugardaginn 27. ágúst gegn Úkraínu og hefst hann kl. 20:00 og verður í beinni útsendingu á RÚV2. Miðasala er hafin á STUBB og eru takmarkað magn miða eftir.

Bæði lið andstæðinga Íslands eru fyrnasterk og bæði á leið á lokamót EM, EuroBasket 2022, sem hefast í byrjun september að þessum glugga loknum.

Craig Pedersen landsliðsþjálfari og aðstoðarþjálfarar hans hafa valið þá 12 leikmenn sem skipa liðið að þessu sinni og einn leikmann til vara.

Íslenski landsliðs æfingahópurinn er skipaður eftirtöldum leikmönnum: (landsleikir í sviga)
Elvar Már Friðriksson · Rytas Vilnius, Litháen (59)
Haukur Helgi Briem Pálsson · Njarðvík (70)
Hilmar Pétursson · Muenster, Þýskalandi (Nýliði)
Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík (93)
Jón Axel Guðmundsson · Hakro Merlins Crailsheim, Þýskaland (20)
Kári Jónsson · Valur (26)
Kristófer Acox · Valur (46)
Sigtryggur Arnar Björnsson · Tindastóll (22)
Styrmir Snær Þrastarson · Davidson, USA (3)
Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spáni (52)
Þórir G. Þorbjarnarsson · Ovideo, Spáni (18)
Ægir Þór Steinarsson · CB Lucentum Alicante, Spáni (74)

13. leikmaður liðsins: Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Hamar (57)

Þjálfari: Craig Pedersen
Aðstoðarþjálfari: Hjalti Þór Vilhjálmsson og Baldur Þór Ragnarsson
Sjúkraþjálfari: Valdimar Halldórsson · Atlas Endurhæfing
Læknir: Hallgrímur Kjartansson
Fararstjórn og liðsstjórn: Kristinn Geir Pálsson, Hannes Jónsson og Jón Bender

Fyrirkomulag · L-riðill
Ísland var upprunalega í H-riðli með Rússlandi, Ítalíu og Hollandi og komast áfram í aðra umferð. Liðin sem sameinast í nýjum sex liða riðli eru Spánn, Georgía og Úkraína. Þrjú efstu þessara liða eftir aðra umferð þar sem liðin leika gegn hinum nýju liðum hvert heima og að heiman, leika á HM næsta sumar. Alls verða það 12 evrópsk lið sem leika á HM sem fram fer í Japan, Indónesíu og á Filipseyjum.

Allt um leikina, mótið og heimasíða keppninnar er að finna hér á kki.is:
www.kki.is/landslid/karlar/hm-2023/

#korfubolti