26 feb. 2022Í þessum febrúar landsliðsglugga í undankeppi FIBA World Cup 2023 er það seinni leikurinn sem er framundan gegn Ítalíu hjá íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik. Umferðirnar riðlakeppninni speglast en hugmyndin er að þannig fá öll lið heimaleik + útileik í hverri umferð og því mætast liðin aftur núna en bæði lið hafa leikið þrjá leiki. Ísland leikur í H-riðli ásamt Ítalíu, Rússlandi og Hollandi.

Í gær ferðaðist íslenska karlalandsliðið ytra til Bologna á Ítalíu og var hópurinn lentur þar síðdegis og hefur hann komið sér fyrir. Framundan í dag eru tvær æfingar hjá leikmönnum og hvíld eftir tvíframlengda leikinn á fimmtudaginn! Leikið verður í PallaDozza höllinni í miðbæ Bologna en hún tekur um 6.000 áhorfendur. Heimilt verður að selja allt að 3.000 miða fyrir leikinn gegn Íslandi vegna fjöldatakmarkana hjá ítölskum yfirvöldum.

FIBA er búið að fresta talsvert af leikjum vegna stríðsins í Úkraínu og Rússlandi og fer til að mynda leikur Hollands og Rússlands ekki fram í okkar H-riðli. Þá hefur leik Úkraínu sömuleiðis verið frestað í G-riðlinum sem og hjá Litháen og Hvíta-Rússlandi í sínum riðlum en þessi lið áttu ýmist heimaleiki eða útileiki gegn sínum andstæðingum.

Breyting á íslenska hópnum:
Í íslenska liðinu hefur verið gerð ein breyting við það að Haukur Helgi Briem Pálsson greindist jákvæður á COVID-prófi á leikdag á fimmtudaginn. Hann gat þar af leiðandi ekki leikið né ferðast út og kemur Kristinn Pálsson frá Grindavík inn í hans stað. Sömu sögu er að segja af Baldri Þór Ragnarssyni, aðstoðarþjálfara liðsins, en í hans stað kom Jón Arnór Stefánsson inn í teymið til aðstoðar fyrir Craig Pedersen og Hjalta Þór Vilhjálmsson.

Heimasíða keppninnar: (staða, fréttir og upplýsingar um lið og leikmenn): 

ÁFRAM ÍSLAND! 🇮🇸