19 jan. 2022Framundan er landsliðsgluggi hjá landsliði karla í körfuknattleik þegar liðið á tvo leiki á dagskránni í undankeppni HM 2023 gegn Ítalíu í febrúar. Leikið verður heima og að heiman en fyrri leikurinn er hér á landi og svo fer sá síðari fram á Ítalíu.
Heimaleikur Íslands verður í Ólafssal að Ásvöllum í Hafnarfirði fimmtudaginn 24. febrúar og útileikurinn fer fram sunnudaginn 27. febrúar í Pala Dozza höllinni í Bologna. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV.
Í nóvember sl. fékk kvennalandsliðið heimild til að leika í Hafnarfirði með sérstöku leyfi FIBA og tókst það vel til.
FIBA hefur samþykkt sérstaka ósk KKÍ um að leika heimaleikinn í Ólafssal að Ásvöllum með því að uppfylla aftur kröfur FIBA um allan búnað og aðstöðu. Laugardalshöllin er ennþá óstarfhæf líkt og áður og sér ekki fyrir endan á því hvenær hún verður tilbúin til notkunar á ný. FIBA gaf leyfi nú fyrir Ólafssal fyrir þessum eina heimaleik þar sem ríkisstjórn Íslands hefur sett málefni þjóðarleikvangs inniíþrótta í forgang og í vor á að vera kominn niðurstaða í þá vinnu.
KKÍ þakkar starfsfólki Laugardalshallar fyrir góða aðstoð og vinnu við að leysa málið en KKÍ þarf að fá talsvert af búnaði að láni frá Laugardalshöll svo hægt sé að gera Ólafssal leikhæfan samkvæmt kröfum FIBA. Einnnig þakkar KKÍ Haukum fyrir sína aðstoð og samstarf fyrir þennann leik og þann sem var í nóvember hjá stelpunum.
Koma verður í ljós hvort áhorfendur verða leyfðir í Ólafssal en það verður auglýst nánar síðar þegar það liggur fyrir.