13 nóv. 2021
Núna á miðnætti tók ný reglugerð heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir gildi. Reglugerðin mun gilda frá 13. nóvember til 8. desember, nema annað verði sérstaklega tilgreint.
Eftirfarandi eru helstu atriði er snerta íþróttahreyfinguna:
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 50 manns og heimilt verður að hafa allt að 50 manns á æfingum og í keppni.
- Grímuskylda mun gilda þar sem ekki verður hægt að viðhafa 1 metra fjarlægð frá ótengdum aðilum. Sem fyrr þarf ekki að nota grímu við íþróttaiðkun.
- Börn fædd 2016 og fyrr verða undanþegin grímuskyldu, fjölda- og nálægðartakmörkunum.
- Heimilt verður að hafa allt að 500 manns í áhorfendasvæðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er m.a. varðar skráningu, notkun hraðprófa og grímunotkun.
- Þar sem hraðpróf eru ekki notuð fyrir áhorfendur er heimilt að hafa að hámarki 50 manns í hverju rými svo lengi sem allar reglur um sóttvarnir eru virtar.
- Óheimilt verður að selja veitingar í hléi.
Nýjar leiðbeiningar KKÍ og HSÍ ásamt ítarefni má finna á Covid-svæði á heimasíðu KKÍ.
- Leiðbeiningar um framkvæmd æfinga og keppni
- Ítarefni – starfsmannalisti á leikjum meistaraflokka
- Ítarefni – leiðbeiningar um framkvæmd yngri flokka leikja
Í ítarefninu má annars vegar sjá heimila skiptingu á keppnissvæði og ytra svæði. Mikilvægt er að ekki verði fleiri en 50 einstaklingar á keppnissvæði á hverjum leik. Hins vegar má sjá leiðbeiningar um framkvæmd yngri flokka leikja við núverandi samkomutakmarkanir. Gott er að muna við framkvæmd leikja að hámarksfjöldi í hverju hólfi verður aldrei meiri en 50.
Athugið að hvert sóttvarnarhólf þarf að hafa sérinngang, vinsamlegast gætið að því að upplýsa mótherja um innganga fyrir þátttakendur leiks með góðum fyrirvara. Það einfaldar margt ef félög eru í sambandi fyrir leiki vegna upplýsinga tengd COVID-19 framkvæmd.
Þrátt fyrir þessar samkomutakmarkanir er það stefna KKÍ að halda öllum keppnum áfram á meðan það er leyft og fært verður að leika út frá gildandi samkomutakmörkunum. Leikjadagskrá er því óbreytt þar til annað er tilkynnt.
Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir til 8. desember 2021.