15 ágú. 2021Það er ekki aðeins karlalandslið Íslands og yngri lið Íslands sem eru á fullri ferð í Evrópu þessa dagana heldur eru líka FIBA dómarar og eftirlitsmenn Íslands í FIBA-verkefnum.

Davíð Tómas Tómasson FIBA dómari, Rúnar Birgir Gíslason FIBA eftirlitsmaður og Kristinn Óskarsson FIBA dómaraleiðbeinandi eru allir við störf erlendis þessa dagana.

Davíð Tómas og Rúnar Birgir eru í Dublin í Írlandi þar sem fer fram karlakeppni Evrópumóts smáþjóða (C-deild) þar sem keppa Írland, Andorra, Malta, Gíbraltar og San Maríno. Hér er heimasíða mótsins sem klárast í dag.

Kristinn er hins vegar í San Fernando á Spáni þar sem fer fram B-riðill áskorendakeppni U16 kvenna þar sem sex lið etja kappi og því þrír leikir á dag. Kristinn fylgist með dómurum leikjanna og gefur þeim svo umsögn eftir leik auk þess að stýra morgunfræðslu dómara.



Það er ánægjulegt að sjá að Íslendingar fá verkefni frá FIBA þetta sumarið en Ísland á fjóra FIBA dómara (fimm í september) og tvo eftirlitsmenn.