13 ágú. 2021
Ísland vann í kvöld Danmörku í öðrum leik sínum í riðlinum sem er liður að forkeppni HM2023. Lokatölur 91:70 fyrir Ísland en um var að ræða hörku leik sem okkar drengir lönduðu fagmannlega.
Mikið jafnræði var með liðunum framanaf en Ísland var með undirtökin þó munurinn væri ekki mikill. Ísland náði 15 stiga forskoti í fyrri hálfleik en Danmörk minnkaði muninn um 9 stig með áhlaupi. Hálfleikstölur 43:39 fyrir Ísland.
Í seinni hálfleik átti Ísland góðan leik og hélt linnulaust áfram að sækja og verjast. Með góðri liðsvörn og framlagi frá Elvari Má og liðsfélögum skóp liðið sér frábæran sigur í annars jöfnum leik og jöfnum riðli þar sem stigamunur gæti skipt máli að lokum.
Elvar Már Friðriksson fór fyrir Íslandi í stigaskori og var með 30 stig, þar af 6/8 í þriggjastiganýtingu og var með 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 32 framlagsstig. Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason voru með 13 stig hvor, Hörður Axel Vilhjálmsson 12 stig og Kári Jónsson 11 stig.
Næsti leikur liðsins verður aftur gegn Svartfjallalandi á mánudaginn kemur kl. 18:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni á RÚV2.