21 júl. 2021Strákarnir í U20 hófu leik í gær gegn Finnlandi í sínum fyrsta leik af fjórum á U20 móti sem fram fer í Eistlandi.

Í dag er komið að öðrum leik liðsins og hefst hann kl. 16:30 að íslenskum tíma í dag (19:30 í Eistlandi). Hægt er að sjá lifandi tölfræði og horfa á beint streymi (gegn vægu gjaldi). Sjá nánar hérna
 
Finnland 86:65 Ísland
Eftir flotta fyrstu þrjá leikhlutana í leiknum reyndist sá fjórði og síðasti strákunum okkar erfiður og og niðurstaðan varð 21 stig tap í fyrsta leik gegn Finnum, 86:65.

Finnar byrjuðu leikinn betur og leiddu mest með 11 stigum í fyrri hálfleik en frábær lokasprettur íslenska liðsins í fyrri hálfleik sá til þess að strákarnir voru 1 stigi yfir í hálfleik. Strákarnir byrjuðu seinni hálfleik af sama krafti og komust 7 stigum yfir en Finnar komu til baka og leikurinn í miklu jafnvægi eftir 3. leikhluta. Það var síðan í lokaleikhlutanum sem leiðir skildu og Finnar unnu hann með 19 stigum, 29:10 og tryggði sér sannfærandi sigur.

Fyrirliðinn, Júlíus Orri Ágústsson fór fyrir íslenska liðinu í fyrri hálfleik og Dúi Þór Jónsson steig upp í þeim seinni. Ástþór Svalason var framlagshæsti leikmaður vallarins og gerði engin mistök í sínum leik. Sigurður Pétursson var að spila sinn fyrsta landsleik á ferlinum og byrjaði inn á. Sigurður spilaði flotta vörn. Hittni liðsins fyrir utan var ekki góð að þessu sinni og þá töpuðust of margir boltar.

Framundan eru leikir gegn Svíum og Eistum og að þeim loknum verður leikið um 1. og 3. sæti mótsins.