29 maí 2021

Stjarnan er Íslandsmeistari í 9. flokki drengja eftir 85-64 sigur á Haukum í úrslitaleik í TM-helli ÍR fyrr í dag.

Leikurinn var lengst af frekar jafn þó Stjarnan hafi haft frumkvæðið mestan part leiksins. Eftir jafnan fyrri hálfleik munaði 7 stigum á liðunum, 48-41, en með Stjarnan tók svo völdin í seinni hálfleik sem þeir unnu með 14 stiga mun. Hægt er að sjá myndir úr leiknum hérna.

Ásmundur Múli Ármannsson fór fyrir liði Stjörnunnar í dag og var valinn maður leiksins í leikslok. Hann skilaði 16 stigum, 13 fráköstum og 4 stoðsendingum. Guðlaugur Breki Sigurgeirsson átti einnig mjög góðan leik fyrir Stjörnuna með 18 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hjá Haukum var Orri Þrastarson atkvæðamestur með 17 stig og 6 fráköst. Reynar Hlynsson skilaði svo 14 stigum og Teitur Árni Sigurðarson 13 stigum.