29 maí 2021
Fjölnir er Íslandsmeistari drengjaflokks eftir 82-75 sigur á Suðurlandi í úrslitaleik í TM-helli ÍR fyrr í dag.
Fjölnismenn voru sterkari framan af leik og náðu mest 25 stiga forystu í þriðja leikhluta. Góð endurkoma Suðurlands gerði leikinn aftur spennandi og minnkuðu muninn niður í 5 stig þegar rúm mínúta var eftir, en Fjölnir náði þá að standast áhlaupið og klára leikinn. Hægt er að sjá myndir úr leiknum hérna.
Ólafur Ingi Styrmisson fór fyrir liði Fjölnis og var valinn maður leiksins í leikslok. Hann skoraði 30 stig, tók 19 fráköst og stal 3 boltum. Daníel Ágúst Halldórsson var líka atkvæðamikill, en hann skoraði 18 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.
Ísak Júlíus Perdue og Eyþór Lár Bárðarson fóru fyrir liði Suðurlands, en þeir skoruðu hvor um sig 21 stig. Ísak tók auk þess 6 fráköst og Eyþór tók 5 fráköst ásamt því að veiða 10 villur á mótherja sína.