27 maí 2021Á undanförnum misserum hefur talsverð vinna farið í það hjá KKÍ að skoða, skipuleggja og sjá fyrir hvernig landsliðsverkefnin hjá yngri landsliðum Íslands yrði háttað í sumar. Því miður er það enn staðreynd að röskun er á hefðbundnu afreksstarfi v/ Covid-19 og þeirra áhrifa sem það hefur á alla skipulagningu.
 
Það hafa verið að berast upplýsingar frá FIBA fyrir sumarið framundan, enda hefur verið mikil óvissa hvað yrði lagt upp með af þeirra hálfu, og hafa mörg lönd beðið með allar ákvarðanir fyrir sín yngri landslið þangað til það myndi liggja fyrir hvað FIBA myndi gera í sumar með yngri mótin hjá sér. 

KKÍ hefur nú farið vel yfir málin og meðal annars fundað nokkrum sinnum með hinum Norðurlöndunum varðandi þeirra næstu skref, en þar er mjög gott samstarf á milli og löndin vinna margt í sameiningu.

Ákvörðun FIBA er sú að að ekki verða haldin hefðbundin Evrópumót í sumar með 16 þjóðum í A-deild og allt að 24 löndum í B-deild heldur mun verða keppt í nýju fyrirkomulagi sem kallast FIBA Youth European Challengers. Þau mót verða 6-liða riðlar hvert um sig sem haldin eru hvert um sig á sitthvorum leikstaðnum. Það yrði styrkleikaraðað eftir skráningu og stöðu liðanna frá því á síðasta ári í riðlana. Gengi liða í sumar á þessum mótum hefur ekki áhrif á röðun landa á næsta ári, það er að allar þátttökuþjóðir verða áfram í sínum A- og B-deildum frá árinu 2019 næsta sumar 2022.

Þá er það einnig ljóst að þetta yrði mjög kostnaðarsamt verkefni fyrir KKÍ að taka þátt á EM mótum sumarsins af ýmsum ástæðum.

Í kjölfarið á þessum fundum og upplýsingum hefur stjórn KKÍ ákveðið að taka EKKI þátt í neinum FIBA-mótum í sumar og senda ekki íslensk lið til keppni á þeim.

Það eru margar ástæður sem liggja að baki þeirri ákvörðun stjórnar KKÍ. Númer eitt er að öryggi þátttakenda frá Íslandi er ekki hægt að tryggja með ferðalögum og við dvöl erlendis í sumar. 

Meðal atriða sem tekin voru til sjónarmiða og hafa áhrif eru: 
· Það er óvissa um leikstaði, kemur í ljós í fyrsta lagi í júní hvar verður leikið
· Óvissa er með allan kostnað (verður kostnaðarsamt fyrir KKÍ og foreldra/leikmenn)
· Flugsamgöngur eru flóknar. Allt að þrjú flug + mögulega gistingar til og frá mótum
· Tvær COVID-skimanir þarf heima fyrir brottför
· Keppendur yrðu í „Bubblu“ úti og engir áhorfendur leyfðir á mótum
· Áhætta er við að dvelja og ferðast erlendis, sérstaklega fyrir utan EES-svæði/lönd
· Engin fer upp eða niður úr deildum í ár (við yrðum áfram í okkar deildum næst)
· Langur tími sem fer í dvöl úti ef upp koma smit og flókið að leysa
· NM er á dagskránni eins og staðan er í dag í ágúst. Svipað verkefni og EM yrði í ár


Hvað er á dagskránni í sumar hjá yngri landsliðum KKÍ:

U16 og U18 landsliðin:
Norðurlöndin eru á því að halda NM og að staðfesta sín U16 + U18 lið til þátttöku á mótinu sem haldið yrði í tvískiptu lagi í lok júlí og í ágúst (U16 liðin saman og U18 saman) á eftirfarandi dagsetningum (ATH! Mótið er enn í vinnslu og á eftir að staðfestast af mótshöldurum í Finnlandi endanlega):

· U16 liðin:  31.7. - 04.8
· U18 liðin:  16.8. - 20.8

U20 ára landsliðin:
Þau Norðurlönd sem hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt með U20-liðin sín hafa einnig rætt saman og stefnt er að því að setja saman mót/leiki fyrir þessi lið. Viðræður eru í gangi með að setja saman verkefni fyrir þessi lið upp úr miðjum júlí.

Næstu skref KKÍ:
Þau sem fara fyrir afreksstarfi KKÍ munu núna fara yfir með hvaða hætti æfingahópar verða kallaðir inn og hvernig æfingaprógrammi sumarsins verður háttað í undirbúningnum fyrir þessi verkefni. Í kjölfarið verður upplýsingum komið áleiðis til foreldra og leikmanna varðandi það. Áætla má að æfingar myndu hefjast í júlí hjá U16, U18 og U20 liðunum og þá er einnig á áætlun að U15 liðin fái æfingatímabil í sumar, en hjá U15 liðunum er ljóst að ekki verður keppt á neinum mótum í ár.