25 apr. 2021

Það er stutt á milli stóru áfanganna hjá Kristni Óskarssyni dómara þessa dagana, ekki er langt síðan hann dæmdi sinn 800. leik í úrvalsdeild karla og í kvöld dæmir hann sinn 1000. leik í efstu deild karla ef úrslitakeppnin er tekin með og er hann fyrstur körfuboltadómara til að ná þeim áfanga og líklega fyrstur dómara á Íslandi til að dæma 1000 leiki í einni deild og úrslitakeppni þeirrar deildar.

Þúsundasti leikur Kristins verður viðureign Tindastóls og Þórs frá Þorlákshöfn en það er gaman frá því að segja að fyrsti leikurinn af þessum 1000 var leikur Njarðvíkur og Tindastóls 23. október 1988 og þá var Kári Marísson leikmaður Tindastóls en núna nærri 33 árum seinna er Axel sonur Kára að spila með Tindastól.

Til samanburðar þá eru þeir leikmenn sem hafa spilað flesta deildarleiki auk úrslitakeppni með rúmlega 500 leiki.

Það er líka áhugavert að þessir 1000 leikir dreifast á 5 áratugi, 9. og 10 áratug síðustu aldara og 1., 2. og 3. áratug 21. aldarinnar.

Og þar sem tölfræðideild kki.is er byrjuð þá er merkilegt að sjá það að á þessum árum sem Kristinn hefur dæmt í efstu deild karla hafa verið leiknir 5006 leikir með leiknum í kvöld, hann hefur því dæmt 20% þeirra.

Af þessum 1000 leikjum hafa flestir leikirnir verið hjá Grindavík eða 236, næst kemur KR með 234 og þá Njarðvík með 230 en alls hafa 22 félög leikið í deildinni á þessum tíma. KR er það lið sem Kristinn hefur oftast heimsótt en af leikjunum 1000 eru 129 heimaleikir hjá KR en vissulega hefur KR leikið á nokkrum stöðum en næst á eftir er Grindavík með 127 heimaleiki.

Sá dómari sem hefur oftast dæmt með Kristni er Rögnvaldur Hreiðarsson en þeir hafa verið saman í 115 skipti af þessum 1000 en alls hafa 61 dómari dæmt leikina með honum.

KKÍ óskar Kristni til hamingju með áfangann.

Á myndinni sem fylgir með er Kristinn með þeim Kára Maríssyni og Haraldi Leifssyni sem spiluðu báðir fyrsta leikinn og svo er Axel sonur Kára þarna með en hann spilaði 1000. leikinn. Myndina tók Hjalti Árnason sem lék einmitt fyrsta leikinn sem Kristinn dæmdi á Sauðárkróki