21 apr. 2021
KKÍ í samvinnu við Rafíþróttasamtök Íslands mun Ísland taka þátt í FIBA Esport Open III þar sem keppt verður á Playstation í leiknum NBA2K í lok næstu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem KKÍ og Ísland tekur þátt í rafíþróttamóti á vegum FIBA.
Keppni hefst föstudagin 23. apríl og verður Ísland í riðli með þrem öðrum liðum. Fyrsti leikur hefst kl. 17:00 og verður svo leikið aftur kl. 17:40 og 18:20.
Alls eru fjórir riðlar með fjórum liðum í Evrópudeildinni. Tvö efstu liðin í hverjum riðli fara áfram í 8-liða úrslitin sem leikin verða á laugardeginum 24. apríl og fjögur bestu fara í lokaúrslit á sunnudegi.
Ísland er í riðli með Kýpur, Bosníu og Serbíu og mjög líklega verður einnig hægt að fylgjast með keppinni beint á rafíþróttarrás Stöðvar 2 Sport sem og á netinu á miðlum FIBA (Youtube, Facebook og Twitch) undir merkinu #FIBAesportsOpen. Allir tenglar á útsendingar á netinu verða svo aðgengilegir einnig á kki.is.
Sex leikmenn eru skráðir á mótið að þessu sinni og eru fimm sem spila hvern leik. Um tímamót er að ræða í sögu KKÍ þar sem þetta er fyrsta rafíþróttalið KKÍ sem mætir til leiks á vegum sambandsins og við hæfi að það sé að gerast nú á 60 ára afmælisári sambandsins.
Landslið Íslands í NBA2K 2021 skipa eftirtaldir leikmenn:
#24 · Agnar Daði Jónsson · 28 ára · Reykjavík
# 9 · Alexander Leon Kristjánsson · 19 ára · Ísafjörður
#11 · Björgvin Lúther Sigurðarson · 43 ára ·Reykjavík
#12 · Friðrik Heiðar Vignisson (Fyrirliði) · 18 ára · Ísafjörður
# 7 · Lórenz Geir Þórisson · 17 ára · Hafnarfjörður
#34 · Róbert Ingi Gunnarsson · 18 ára · Hafnarfjörður
Liðsstjórar: Aron Ólafsson og Jóhannes Páll Durr frá RÍSÍ og Kristinn Geir Pállson frá KKÍ.
Um leikmenn liðsins:
Friðrik Heiðar er fyrirliði liðsins. Friðrik æfir körfbolta með Vestra í unglingaflokki og meistaraflokki í 1. deildinni og var leikmaður í U15 ára landsliði Íslands sumarið 2018. Alexander Leon kemur einnig frá Ísafirði en æfir ekki sjálfur körfubolta. Agnar Daði er úr Reykjavík og er mikill áhugamaður um NBA og Björgvin Lúther er úr Reykjavík og hefur æft körfubolta og nú síðast með Álftanesi í 3. deild. Þá æfa Lórenz Geir og Róbert Ingi saman með drengja og unglingaflokkum Hauka í Hafnarfirði.
Liðið hefur verið að taka æfingaleiki að undanförnu og verður gaman að sjá þá spreyta sig á mótinu á föstudaginn gegn hinum landsliðunum.
Heimasíða mótsins:
www.fiba.basketball/esports/open3/2021
Tímasetningar leikja:
Föstudagur 23. apríl
kl. 17:00 gegn gegn Kýpur
kl. 17:40 gegn Bosníu
kl. 18:20 gegn Serbíu
Laugardagur 24. apríl
(8-liða úrslit fyrir efstu tvö liðin í riðlinum)
Sunnudagur 25. apríl
(Undanúrslit og úrslit)