22 mar. 2021
Þriðjudaginn 23. mars kl. 14:00 verður dregið í VÍS bikar KKÍ í höfuðstöðvum VÍS í Reykjavík, en VÍS er nýr bakhjarl Körfuknattleikssambands Íslands. Þrátt fyrir óvissu vegna alheimsfaraldursins er það gleðiefni að framundan sé bikarkeppni KKÍ en þá verður barist um VÍS bikarinn. Því er ljóst að körfuboltinn verður rauðari en hann hefur nokkurn tímann verið!
Að þessu sinni verður viðburðinum streymt á FB síðu VÍS. Ekki er mögulegt að bjóða fulltrúum félaga að vera á staðnum.
VÍS bikar kvenna
Alls eru 16 lið skráð til leiks í VÍS bikar kvenna (Breiðablik, Fjölnir, Grindavík, Hamar-Þór, Haukar, ÍR, Keflavík, Keflavík b, KR, Njarðvík, Skallagrímur, Snæfell, Stjarnan, Tindastóll, Valur, Vestri), en dregið verður beint í 16 liða úrslit VÍS bikars kvenna. 16 liða úrslit VÍS bikars kvenna verða leikin miðvikudaginn 21. apríl, en dregið verður í 8 liða úrslit strax að kvöldi 21. apríl þegar ljóst er hvað 8 lið hafa tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum.
VÍS bikar karla
Í VÍS bikar karla eru 21 lið skráð til leiks (Álftanes, Breiðablik, Fjölnir, Grindavík, Hamar, Haukar, Höttur, Hrunamenn, ÍR, Keflavík, KR, Njarðvík, Selfoss, Sindri, Skallagrímur, Stjarnan, Tindastóll, Valur, Vestri, Þór Ak. Þór Þ.). Drátturinn verður því þrískiptur karlamegin.
- Fyrst verður dregið í forkeppni, en þá verða öll 9 lið 1. deildar karla í skálinni. Tvö lið verða dregin, en þau lið munu mætast í forkeppni. Þetta er viðureign 1.
- Næst verður dregið í undankeppni, en þá verða þau 7 lið 1. deildar í skálinni, ásamt miða sem á stendur Sigurvegari viðureign 1, þannig að úr verði 4 viðureignir 8 liða, þetta eru þá viðureignir 2, 3, 4 og 5.
- Þá verður dregið í 16 liða úrslit, en þá verða öll 12 lið Domino's deildar karla í skálinni, ásamt fjórum miðum sem á stendur Sigurvegari viðureign 2, Sigurvegari viðureign 3, Sigurvegari viðureign 4, Sigurvegari viðureign 5. Þá loks eru komnar þær 8 viðureignir sem leiknar verða fimmtudaginn 22. apríl.
Dregið verður í 8 liða úrslit strax að kvöldi 22. apríl þegar ljóst er hvaða 8 lið hafa tryggt sér sæti í 8 liða úrslitum.
Leikdagar
Leikdagar í VÍS bikarnum 2021 eru eins og hér segir
16 liða úrslit kvenna: 21. apríl
8 liða úrslit kvenna: 24. apríl
Undanúrslit kvenna: 27. apríl
VÍS bikarúrslit kvenna: 1. maí 16:30 í Smáranum
16 liða úrslit karla: 22. apríl
8 liða úrslit karla: 25. apríl
Undanúrslit karla: 28. apríl
VÍS bikarúrslit karla: 1. maí 19:30 í Smáranum