15 mar. 2021

Á Körfuknattleiksþingi 2021 voru ný lög KKÍ samþykkt. Eldri lög sambandsins hafa þjónað sínum tilgangi vel og hefur almenn sátt verið um þau. Þrátt fyrir ágæti laganna hefur KKÍ borist athugasemdir um inntak þeirra á þeim rúma áratug sem liðinn er frá gildistöku þeirra, hvort heldur frá aðildarfélögum, ÍSÍ eða FIBA. Vegna þessa ákvað stjórn KKÍ að leita endurskoðunar hinna gildandi laga og skipaði til þess vinnuhóp sem samanstóð af Maríu Káradóttur, Sveinbirni Claessen og Þórólfi Þorsteinssyni, öll lögfræðingar að mennt. Snorri Örn Arnaldsson, starfsmaður KKÍ, var nefndinni innan handar.  

Tilgangur vinnuhópsins var að yfirfara gildandi lög sambandsins. Vinnuhópnum varð fljótlega ljóst að allnokkrar breytingar þurfti að vinna á gildandi lögum svo þau næðu því markmiði að endurspegla starfsemi KKÍ, hlutverk, inntak og skyldur þess gagnvart körfuknattleikssamfélaginu á Íslandi. Á það sama við um skyldur aðildarfélaga sambandsins. Með hliðsjón af þeim fjölda breytinga, sem þurfti að vinna á gildandi lögum svo lögin teldust fullnægjandi, taldi nefndin ráðlegast að semja drög að nýjum lögum. Lögin voru samþykkt án umræðu á Körfuknattleiksþingi 2021.