13 mar. 2021

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, flutti skýrslu stjórnar við setningu körfuknattleiksþings nú fyrir skömmu. Þingið fer fram í gegnum fjarfundarbúnað, en hægt er að nálgast öll gögn þingsins hér.

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ

Þingforseti, forseti ÍSÍ, varaforseti UMFÍ, kæru þingfulltrúar

Síðastliðið ár hefur verið afar sérstakt, þjóðfélagið og heimurinn allur búið við ýmsar takmarkanir og þingið okkar sem fram fer í dag er haldið við aðrar aðstæður en það sem við þekkjum eða viljum. Ég vildi óska þess að hér væri fullur salur af þingfulltrúum félaganna þar sem við gætum hist, spjallað og rökrætt málin í raunheimum. Það er þó jákvætt að töluverð reynsla er kominn á fjarfundi og fjarþing sem gerir okkur kleift að halda þetta þing eins og lög sambandsins gera ráð fyrir.

Heimsfaraldur COVID-19 hefur sett mark sitt á allt síðasta ár. Hægt er að segja að faraldurinn hafi haft afdrifarík áhrif á allt daglegt líf okkar síðustu 12 mánuði, minnug þess að þennan sama dag, 13. mars, fyrir ári síðan, fóru síðustu leikir tímabilsins 2019-2020 fram. Áhrif faraldursins þekkjum við öll, en þau hafa reynt verulega á körfuboltafjölskylduna og allt þjóðfélagið. Svo sannarlega var, og er enn, um fordæmalausa tíma að ræða.

Síðasta vor lá fyrir stjórn KKÍ að leysa eitt erfiðasta verkefni sambandsins frá upphafi. Ekki var hægt að sækja í nein fordæmi eða nýta reynslu annarra. Sú gagnrýni sem heyrðist var réttmæt, því vitað er að ekki var hægt að taka „réttar“ ákvarðanir við þessar aðstæður og fá sanngjarna niðurstöðu – eina leiðin til þess er að leika mótin til enda. Við vitum það líka að hefði stjórn KKÍ tekið aðrar ákvarðanir, þá hefði sama gagnrýni borist úr öðrum áttum, og hefði hún verið jafn réttmæt.

KKÍ var eitt af fyrstu sérsamböndum Evrópu, ef ekki heimsins, til að takast á við þá stöðu sem uppi var og ákveða hvernig ljúka skyldi keppnistímabilinu 2019-2020. Körfuboltasambönd margra annarra þjóða leituðu þess vegna til KKÍ eftir samtali og leiðsögn vorið 2020. KKÍ fékk sérstakt hrós frá FIBA vegna þess hvernig tekið var á málum hér á landi og lýsti FIBA yfir góðum stuðningi við ákvarðanir sambandsins.

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil og afgerandi áhrif á bæði keppnistímabilin á starfstímabilinu. Það hefur farið mjög mikill tími og kraftur stjórnar, skrifstofu og nefnda sambandsins í ný og óvænt verkefni, sem upp koma vegna títtnefndra aðstæðna.

Það var ljóst sumarið 2020 að heimsfaraldurinn myndi hafa áframhaldandi áhrif á starf KKÍ. Vegna þessa útbjó stjórn KKÍ sérstaka reglugerð er tekur á flestum þeim atriðum er snúa að keppnishaldi meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Reglugerðin segir til um hvernig beri að taka á málum ef upp kemur sú staða að fresta eða færa þurfi til leiki í mótahaldi vegna takmarkana yfirvalda. Reglugerðin var kynnt aðildarfélögum KKÍ, en engar athugasemdir bárust frá hreyfingunni vegna hennar. Það kom til þess mjög snemma á keppnistímabilinu að grípa þyrfti til frestana vegna mikillar fjölgunar smita og má segja að frá byrjun október til og með miðjum janúar 2021 hafi mótahaldið verið í töluverðri óvissu. Um miðjan janúar var svo farið að keppa aftur í tveimur efstu deildum karla og kvenna. Í lok janúar hófst deildarkeppni í yngri flokkum og í byrjun febrúar var allt mótahaldið komið af stað þegar fjölliðamót yngri flokka fóru í gang auk neðri deilda meistaraflokka.

Aðildarfélög KKÍ hafa þurft að takast á við gríðarlega erfiðar aðstæður, aðstæður sem eiga sér engin fordæmi. Það er ánægjulegt að sjá hversu frábærlega allir sem að körfuboltanum koma hafa staðið sína vakt með prýði og af fagmennsku. Þetta er enn ein óvænta áskorunin sem sjálfboðaliðar fá í fangið og hafa leyst með miklum sóma. Öllum sem að körfuboltanum koma hér á landi þakka ég fyrir þrautseigju, ósérhlífni og lausnamiðaða vinnu við þessar aðstæður.

KKÍ og körfuknattleiksfólk hefur frá upphafi baráttunnar við COVID-19 lagt sig fram um að fara eftir tilmælum og reglum yfirvalda og munu gera það áfram. Forysta KKÍ hefur átt í góðum samskiptum við yfirvöld sem ávallt hafa verið tilbúin að mæta til fundar til að hlusta á sjónarmið KKÍ og íþróttahreyfingarinnar. KKÍ og HSÍ ákváðu í upphafi þessa faraldurs að vinna eins mikið saman og hægt væri. Samböndin hafa unnið þétt saman að leiðbeiningum til aðildarfélaganna varðandi sóttvarnir í kringum æfingar og keppni, sem hafa verið uppfærðar í hvert sinn sem reglugerð heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir hefur tekið breytingum. Það er hreyfingunni allri mikilvægt að vel takist til og að leiðbeiningunum sé fylgt, en því miður hafa verið brögð að því að áhorfendur hafi ekki fylgt leiðbeiningum starfsmanna leikja. Við treystum á góða samvinnu allra er að leiknum koma, til að tryggja það að boltinn haldi áfram að rúlla með áhorfendur á pöllunum.

Heimsfaraldurinn hafði einnig mjög mikil áhrif á allt afreks- og landsliðsstarf ársins 2020, sem og fram á 2021. Yngri landsliðin fengu engin verkefni á síðasta ári og því mikil breyting frá rúmlega 100 landsleikjum yngri liðanna okkar frá 2019.

A-landslið karla og kvenna fengu það krefjandi verkefni að spila sína leiki í nóvember 2020 og febrúar 2021 í sóttvarnarbubblum. Að ferðast á þessum tímum er mjög krefjandi. Þetta lagði mikla vinnu á herðar öflugs starfsfólks KKÍ og treysta þurfti á ötula samvinnu við Icelandair og VITA. 

Forysta KKÍ hefur lagt mikla áherslu á að aðildarfélögin fengju fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera. Það er ánægjulegt að ríkisvaldið svaraði kallinu og hefur veitt myndarlegan stuðning við allt íþróttastarf, því ber að fagna. Ríkisstjórn, þingmönnum og stjórnum sveitarfélaga þakka ég fyrir mikilvæga aðstoð við aðildarfélög KKÍ á þessum erfiðu tímum. Gott er að minnast á, að á sama tíma hefur KKÍ, ekki fengið neinn fjárhagsstuðning frá hinu opinbera þrátt fyrir þó nokkuð tekjufall og talsverðan kostnaðarauka.

Forysta KKÍ hefur alltaf og mun alltaf tala fyrir hagsmunum og málstað körfuboltans á Íslandi, enda er það eitt af lykilhlutverkum sambandsins. Það hlutverk hefur reynst enn mikilvægara í þessu umróti sem faraldurinn ber með sér. Það er okkur mikilvægt að sjónarmiðum körfuboltahreyfingarinnar og hagsmunum sé haldið á lofti, bæði innan íþróttahreyfingarinnar sem og úti í samfélaginu.

Undanfarin ár hefur rekstur KKÍ reynst þungur, en það má að langmestu leyti rekja til mikils vaxtar landsliðsstarfsins. Það er fagnaðarefni hversu árangur landsliða Íslands hefur verið góður undanfarin ár, en á sama tíma er ansi fjárfrekt að halda úti öflugu landsliðsstarfi. Það hefur reynst KKÍ nauðsynlegt og rennt styrkari stoðum undir rekstur afreksstarfs KKÍ, hversu veglega afrekssjóður hefur hækkað frá 2016. Fyrir þann tíma gat rýr sjóðurinn lítt hjálpað umfangsmiklu afreksstarfi KKÍ. Bætt framlög afrekssjóðs hafa auðveldað rekstur afreksstarfins og á sama tíma létt undir rekstur sambandsins. Í árslok 2017 voru skuldir sambandsins um 55 milljónir króna og því ljóst að framundan væri  erfiður hjalli, þar sem sambandið gat ekki staðið undir sér að óbreyttu. Í raun var allur rekstur sambandsins í gjörgæslu. Með óþreytandi vinnu og velvild góðra aðila hefur tekist að lækka skuldir KKÍ um 41 milljón króna á þremur árum. Áfram verður unnið ötullega að því að koma rekstrinum réttu megin við núllið og á sama tíma að halda úti viðamiklu starfi KKÍ. Ég þakka öllum þeim sem hafa sýnt þessum erfiðu aðstæðum skilning og aðstoðað okkur við að vinna á þessum vanda.

Vinsældir körfuboltans hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum misserum. Okkur er flestum minnisstætt NBA-æðið sem reið yfir landið í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Í dag má segja að Domino‘s-deildaræði hafi heltekið landann. Það er yndislegt að geta sagt það, fullum fetum, að í dag er körfubolti ein vinsælasta íþróttagrein landsins. Útsendingar frá innlendum körfubolta vekja mikla athygli, aðsókn á leiki hefur aukist og iðkendum hefur fjölgað umtalsvert. Auk þessa er körfubolti ein útbreiddasta íþróttagrein landsins, þegar horft er til iðkana innan íþróttahéraða. Frábært starf aðildarfélaga KKÍ, ásamt vandaðri og faglegri umfjöllun um körfuboltann á stærstan þátt í því að stöðugt fleiri landsmenn finni ástríðu sinni farveg í móður allra íþrótta.

Þessi mikli vöxtur endurspeglast í hröðum vexti mótahalds KKÍ. Þennan vöxt má berlega sjá í samantekt mótanefndar frá síðasta sumri um mótahald frá 1990 til 2020. Hægt er að nálgast þessa samantekt á heimasíðu KKÍ, en tengil á hana má finna í ársskýrslu KKÍ, sem liggur fyrir þinginu.

Það er KKÍ mikilvægt að eiga gott og vandað samstarf við fjölmiðla. Þetta samstarf hefur gengið vel og verið körfuboltanum á Íslandi til framdráttar. Fjölmiðlar eiga stóran þátt í örum vexti körfuboltans, enda umfjöllun þeirra verið í senn viðamikil og fagleg. Ég vil nota tækifærið hér og hrósa íþróttafréttamönnum fyrir þeirra góðu og mikilvægu vinnu, fyrir íþróttaáhugafólk og samfélagið allt. Það er ekki sjálfsagt að við körfubolta- og íþróttaáhugafólk fáum þá þjónustu sem fjölmiðlar landsins bjóða okkur upp á. Viðurkenning sú sem Domino‘s körfuboltakvöld fékk á Eddu verðlaununum á síðasta ári ber fagmennskunni glöggt vitni. Ég vil nota tækifærið og óska teyminu sem kemur að Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport enn og aftur til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu.

Undanfarið hefur umfjöllun um áreiti og óeðlileg samskipti milli einstaklinga innan íþróttahreyfingarinnar komist í hámæli. Forsenda þess að mál séu tekin upp innan sambandsins er sú að þau berist inn á okkar borð. Það er miður ef forystu KKÍ hefur ekki tekist að ávinna sér nægilegt traust innan hreyfingarinnar til að þeir aðilar sem brotið er á komi með mál sín til sambandsins. KKÍ hefur sannarlega tekið á þeim málum sem komið hafa með formlegum hætti inn á borð þess. KKÍ mun aldrei brjóta trúnað við þá aðila sem leita til okkar. Við erum ávallt til samtals og samstarfs um það hvernig efla megi þetta traust, því það er mikilvægt að þeim sem brotið er á geti fundið sínum málum farveg, hvort sem er hjá KKÍ, samskiptafulltrúa íþróttahreyfingarinnar eða hjá þar til bærum yfirvöldum. 

Að því sögðu, þá er mikilvægt að hafa það í huga að KKÍ getur aldrei tekið á málum þar sem nafnlausir aðilar ásaka aðra nafnlausa aðila, hvort sem er á samfélagsmiðlum eða á vefsíðum. Mál sem upp koma þurfa að koma inn á borð hjá KKÍ, svo hægt sé að taka á þeim. Engum málum hefur verið, eða verður sópað undir teppið, en það skal ítrekað að orðrómar eða sögur úti í samfélaginu geta ekki talist ábendingar til KKÍ sem hægt er að taka á.

Í starfi sambandsins er í mörg horn að líta. Körfuknattleiksþing er æðsta vald hreyfingarinnar, en á milli þinga stýrir stjórn KKÍ starfi sambandsins. Stjórnin treystir á fastanefndir sem skilgreindar eru í lögum og reglugerðum sambandsins til að reka þau mál sem undir þær heyra. Þessar nefndir vinna sitt starf án aðkomu formanns eða annarra stjórnarmanna, og leysa úr málum í samræmi við reglugerðir, vinnureglur og þær hefðir sem myndast hafa. Starfsfólk skrifstofu vinnur náið með föstum nefndum sambandsins að málum sem þeim tengjast.

Stjórn, nefndir og starfsmenn skrifstofu KKÍ reyna eftir fremsta megni að aðstoða og leiðbeina aðilum innan hreyfingarinnar. Álagið getur eðlilega orðið mikið, enda oftast fjöldi verkefna í gangi á sama tíma og öllum þarf að sinna. Miklu magni upplýsinga er komið á framfæri í tölvupóstum frá skrifstofu sambandsins til aðildarfélaga, og það er okkur öllum mikilvægt að þeir sem stýra starfi félaganna kynni sér málin vandlega og virði þá fresti sem settir eru. Það einfaldar starf og samskipti okkar allra.

KKÍ náði þeim merka áfanga að fagna 60 ára afmæli sínu þann 29. janúar síðastliðinn.
Þann 29. janúar 1961 tókst stórhuga baráttumönnum að setja KKÍ á stofn þrátt fyrir andstöðu annarra íþróttagreina. Þessum einstaklingum eigum við körfuboltafólk mikið að þakka. Það var alltaf hugmyndin að halda uppá sextugsafmæli sambandsins og gera okkur glaðan dag. Við stefnum á það áfram, en afmæli KKÍ verður haldið hátíðlega síðar á þessu ári, þegar hægt verður að fagna við eðlilegar aðstæður.

Ég vil þakka mínu dugmikla og frábæra samstarfsfólki í stjórn og á skrifstofu fyrir traust samstarf og samtöl. Þið eruð öll einstök og vinnið svo sannarlega óeigingjarnt starf fyrir KKÍ og körfuboltann í landinu.   

Að lokum þakka ég ykkur öllum fyrir samstarfið síðustu árin. Það eru forréttindi að fá að standa í stafni fyrir körfuboltahreyfinguna á Íslandi og fyrir það er ég afar þakklátur. Ég mun halda áfram að berjast fyrir hagsmunum körfuboltans, en til þess erum við saman komin á þessu þingi.

Ég vonast eftir málefnalegu og starfsömu þingi þar sem við tökum ákvarðanir með heildarhagsmuni íslensks körfubolta að leiðarljósi.