22 feb. 2021Íslenska karlalandsliðið er nú komið heim og leikmenn til sinna félaga í Evrópu eftir ferðlag í dag frá Kosovó. Ísland vann báða sína leiki í bubblunni í þessum landsliðsglugga en leikið var gegn Slóvakíu og Lúxemborg.
Í hinum riðlinum fóru Portúgal og Hvíta-Rússland áfram ásamt Slóvakíu úr okkar riðli. Þessi fjögur lið fara í fjóra riðla og fá hvert tvö lið að auki úr undankeppni EuroBasket 2022 sem líkur í kvöld. Þá verður ljóst hvaða lið við eigum möguleika á að mæta í síðari umferð forkeppninnar sem fram fer í ágúst.
Í fyrri leik Íslands í bubblunni í Kosovó var leikið gegn Slóvakíu. Ísland var með frumkvæðið í leiknum eftir fyrsta leikhluta og var fjórum stigum yfir í hálfleik. Ísland átti svo frábæran þriðja leikhluta sem vannst 36-16 og úrslitin örugg eftir það, 94:74 fyrir Íslandi. Jón Axel Guðmundsson átti frábæran leik, en eftir stigalausan fyrsta leikhluta endaði hann með 29 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Tryggvi Snær Hlinason var með 17 stig og 14 fráköst og Elvar Már Friðriksson var með 16 stig og 10 stoðsendingar.
Í síðari leik liðsins á laugardaginn gegn Lúxemborg var ljóst að Ísland var komið áfram og búið að vinna riðlinn. Strákarnir voru staðráðnir í að klára mótið sterkt. Ísland byrjaði vel og stýrði leiknum og höfðu 14 stiga forystu í hálfleik. Lúxemborg kom sterkt til baka í síðari hálfleik og minnkaði muninn hægt og rólega. Þeir komust svo yfir þegar um 14 sek. voru eftir af leiknum. Íslands lagði í lokasóknina og það var Elvar Már Friðriksson, sem var að leika sinn 50. landsleik, sem setti þriggja stiga körfu þegar 0,7 sek. voru eftir og Lúxemborg náði ekki að svara og sætur íslenskur sigur staðreynd. Lokatölur 85:86. Jón Axel var einni stoðsendingu frá þrennunni, var með 17 stig, 9 stoðsendingar og 10 fráköst. Elvar Már var með 16 stig og 7 fráköst og Tryggvi Snær var með 25 stig og 5 fráköst.