21 des. 2020Karfa Góð!
Hin goðsagnakennda bók og fræðirit „Karfa góð“ sem gefin var út 1994, er nú komin á heimasíðu KKÍ í .pdf-formi með leyfi höfunda bókarinnar en það voru þeir Svali Björgvinsson og Torfi Magnússon sem bjuggu hana til. Bókin varð fljótt uppseld og er orðin ófáanleg og því mikið gleðiefni að bókin sé aðgengileg fyrir þjálfara og þá sem hafa áhuga á þjálfun. KKÍ kann þeim Svala og Torfa sínar bestur þakkir fyrir að fá að hafa bókina aðgengilega öllum.
Bókina er að finna hérna (undir Fræðslumál > Þjálfaramenntun > Efni fyrir þjálfara)
Ný bók í vinnslu
Ekkert prentað fræðsluefni fyrir þjálfara hefur verið gefið út af KKÍ síðan 1994 og er því gaman að tilkynna að ný þjálfarabók er í bígerð, en Ágúst S. Björgvinsson, Kristinn Geir Pálsson og Snorri Örn Arnaldsson vinna að gerð nýrrar bókar sem hefur fengið nafnið „Komdu í körfu“. Bókin byggir á kennsluefni úr þjálfaranámi KKÍ sem búið er að vinna eftir í rúm fimm ár.
Bókin verður ætluð þjálfurum sem vinna á barna- og unglingastigi og mun nýtast sem kennslubók í þjálfaranámi KKÍ sem og í íþróttafræði í framhalds- og háskólum. Vonir standa til að bókin verði gefin út á seinni hluta næsta árs.