7 des. 2020Nú framundan væri að venju verið að boða fyrstu æfingahópa og skipuleggja jólaæfingar yngri liða KKÍ líkt hefur verið fastur þáttur undanfarin ár í afreksstarfi okkar.

Eins og við vitum öll þá eru uppi fordæmalausir tímar með ýmsum hindrunum sem við höfum verið að glíma við sl. árið og hefur körfuknattleikshreyfingin okkar, leikmenn, þjálfarar og félögin ekki farið varhluta af þeim áskorunum og takmörkunum sem við höfum þurft að takast á við.

Á fundi afreksnefndar KKÍ sem fram fór fyrir helgi var lagt til, sem síðan var samþykkt á fundi stjórnar KKÍ í kjölfarið, að KKÍ mun EKKI standa fyrir landsliðsæfingum yngri liða í íþróttahúsum milli jóla og nýárs eins og venjan er. 

 

Nú nýlega voru æfingar leikmnna sem fæddir eru 2004 og síðar leyfðar hjá félögunum og eftir 9. desember munu æfingar að öllum líkindum verða heimilaðar fyrir eldri árganga að auki. KKÍ ásamt öðrum aðilum íþróttahreyfingararinnar eru að vinna að því að koma æfingum af stað eins og áður segir og hafa lagt í það mikla vinnu hjá ÍSÍ og með yfirvöldum að fá það í gegn.
 
Yfirvöld hafa óskað sérstaklega eftir því við landsmenn að halda blöndun hópa og td. jólaboðum í lágmarki og að hver og ein fjölskylda búi sér til sína eigin „jólalkúlu“. KKÍ telur að skynsamlegast sé að leikmenn fari varlega af stað eftir langt hlé og æfi með sínum félögum út desember hjá hverju félagi fyrir sig heima í sinni heimabyggð, og að það verði ekki blöndun leikmanna víðs vegar að landinu frá mörgum félögum á landsliðsæfingum á vegum KKÍ.

Það sem KKÍ mun gera er eftirfarandi:  

a) Hópar U15-U16-U18 drengja og stúlkna verða valdir formlega, í kringum 25 leikmenn hjá þeim eldri og um 30 hjá U15 liðunum, á næstu dögum.

b) Landsliðsþjálfarar hvers hóps verða kynntir og munu þeir hafa fjarfund hver um sig með sínum hóp í um eina klst. milli jóla og nýárs (27.-30. des.)

c) KKÍ mun síðan boða alla hópana á sameiginlegan fjarfund með fyrirlesurum sem fjalla um mismunandi málefni einn daginn milli jóla og nýárs.

Afreksstjóri og yfirþjálfari yngri liða KKÍ munu skipuleggja þessa fyrirlestra í samráði við Afreksnefnd og vera í bandi við leikmenn með nánari upplýsingar.

Framhaldið skýrist svo á nýju ári, vonandi mun mótahald og æfingar halda áfram óbreytt, og þá verður hægt að skipuleggja næstu skref en fyrir liggur að landsliðshóparnir æfi næsta í upphafi mars 2021. Nánar um það eftir áramót.

ÁFRAM ÍSLAND!