5 ágú. 2020Vegna komu erlendra leikmanna, bæði frá USA og aðildarríkja Schengen er vert að benda á eftirfarandi atriði við komu þeirra til landsins á meðan ferðatakmarkanir og reglur um sóttvarnir eru í gildi.
Nauðsynlegt er að undirbúa alla þá leikmenn sem hingað koma og þurfa að sæta sóttkví undir það sem framundan er. Einnig skal gæta þess að erlendur leikmaður komist ekki í kynni við eða eigi samskipti við aðra sem tengjast félaginu meðan á sóttkví stendur, nema í gegnum fjarskiptabúnað. Sóttkví sem þessi, reynist seinni skimun neikvæð, getur varað í 4-7 daga.
Í dag teljast eingöngu Danmörk, Finnland, Noregur, Þýskaland, Færeyjar og Grænland örugg ríki. Þeir sem þaðan koma eru undanþegnir prófum (1 og 2).
1) USA leikmenn:
Ferðabann er fyrir einstaklinga frá USA en fengist hefur undanþága frá ferðatakmörkunum fyrir leikmenn sem koma hingað til lands að spila sem atvinnumenn sem koma frá löndum utan Schengen. Þessi undanþága er veitt til aðildarfélaga okkar og á okkar ábyrgð frá áritunardeild Utanríkisráðuneytisins.
Um undanþáguna þarf að sækja eftir þessu ferli:
1. Félög sækja um til UTL að venju, skila öllum umbeðnum gögnum inn í frumriti + FBI vottorði.
2. Þegar UTL staðfestir umsókn viðkomandi USA leikmanns, líkt og venjulega, og hún uppfyllir allar kröfur og gefur grænt ljós á að flug fyrir leikmanninn sé pantað þarf að senda fyrirspurn um undanþágu fyrir leikmanninn frá ferðatakmörkunum. Þetta er nýtt skref frá því áður út af COVID-19.
3. Fyrirspurn um hvort öll skilyrði undanþágu séu fyrir hendi er send til áritunardeildar Utanríkisráðuneytisins á netfangið visa@utn.is og óskað eftir staðfestingu á að öll skilyrði undanþágu séu uppfyllt fyrir leikmanninn. Senda þarf staðfestingu UTL með umsókninni sem skilað hefur verið inn með viðhengi.
Landamæri fyrir íþróttamenn opnast með þessu móti. Við komuna til landsins þarf að fylgja fyrirmælum Almannavarna. Leikmenn frá USA þurfa að gangast undir tvær skimanir auk þess sem þeir þurfa að sæta sóttkví milli skimana. Um reglur sóttkvíar gildir reglugerð heilbrigðisráðherra um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 (https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/hrn/nr/0580-2020). Mikilvægt er að hafa í huga þær reglur sem gilda um heimasóttkví og koma fram í reglugerð heilbrigðisráðherra.
2) Evrópskir leikmenn:
EES-borgarar komast hingað án vandræða. Allir fara í próf nema þeir sem hafa dvalið sl. 14 daga á öruggu svæði. Í dag teljast eingöngu Danmörk, Finnland, Noregur, Þýskaland, Færeyjar og Grænland örugg ríki. Þeir sem þaðan koma eru undanþegnir prófum (1 og 2).
3) Sóttkví og skimun:
Allir íþróttamenn sem koma frá löndum sem teljast ekki örugg samkvæmt skilgreiningu yfirvalda þurfa að gangast undir fyrri og seinni skimun, ásamt sóttkví í heimahúsi þar til niðurstaða skimana liggur fyrir.
3) Koma til landsins - fyrir alla leikmenn
Allir fylla út (mest 72 klst. fyrir komu) forskráningarblað hérna:
https://heimkoma.covid.is/
Nánar um skyldur einstaklinga sem eru í heimasóttkví:
Þeim sem gert hefur verið að sæta sóttkví, hvort sem er á grundvelli 1. eða 2. mgr. 3. gr., er skylt að halda sig heima við eða á þeim stað þar sem þeir eru í sóttkví og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis.
Í sóttkví felst eftirfarandi:
1. Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Einstaklingur má þó fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
2. Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu meðan sóttkví stendur yfir.
3. Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur en honum er heimilt að nota leigubíl.
4. Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
5. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
6. Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivistarsvæðum, nema á leið inn og út.
KKÍ hefur sett inn tímabundið ákvæði í reglugerð um félagsskipti fyrir erlenda leikmenn um að leikmenn fái ekki leikheimild fyrr en búið að sýna fram á að seinni skimun sé neikvæði. Reglugerð um félagaskipti má nálgast á heimasíðu KKÍ.
Athugið: Eins og áður þarf að auki staðfestingu á atvinnuleyfir frá VMST til að leikmenn hljóti leikheimild en það gerist samhliða eða í framhaldinu af dvalarleyfisumsókninni hjá UTL eins og áður.