31 júl. 2020
ÍSÍ bárust í dag frekari skýringar á áhrifum þeirra sóttvarnaraðgerða sem tóku gildi á hádegi í dag á skipulagt íþróttastarf.
- Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
- Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
- Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.
Ljóst er að venjubundnar æfingar fullorðinna (f. 2004 og fyrr) í körfubolta eru bannaðar til 13. ágúst 2020. Þetta hefur áhrif á undirbúningstímabil liða í meistaraflokki, unglingaflokki karla, stúlknaflokki og drengjaflokki, þar sem engin snerting má eiga sér stað á æfingum, skylt verður að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili og leikmenn mega ekki nota sama bolta eða annan búnað án þess að sótthreinsa milli notenda. Ef hægt er að æfa með því að fylgja ítrustu takmörkunum er það heimilt samkvæmt auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
Æfingar barna á grunnskólaaldri (f. 2005 og síðar) geta haldið áfram óhikað, þó þannig að gæta þarf að sótthreinsa búnað milli æfinga.
KKÍ leggur mikla áherslu á það við aðildarfélög að öllum reglum sóttvarnaryfirvalda verði fylgt. Ekki má mikið út af bregða til að áhrif þessa faraldurs verði meiriháttar á komandi keppnistímabil og við viljum forðast það. Þar sem núverandi sóttvarnaraðgerðir hafa áhrif á undirbúningstímabil meistaraflokka er mótanefnd vakandi fyrir þeim áhrifum sem það getur valdið á keppnisdagatali KKÍ og mögulegri frestun eða færslu leikja. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á leikjaskrá KKÍ verða kynntar eins fljótt og hægt er hverju sinni.