17 feb. 2020Kæru sjálfboðaliðar TAKK TAKK
Nú er lokið frábærri Geysisbikarviku í Laugardalshöll, körfuboltaveislu sem tókst mjög vel. Þúsundir lögðu leið sína í Laugardalshöllina og tugþúsundir horfðu leikina á RÚV og YouTube rás KKÍ.
Körfuboltaveisla eins og Geysisbikarvikan tekst ekki nema með mikilli samvinnu margra aðila og fjölda einstaklinga. Þrettán leikir á fimm dögum, allir í beinni útsendingu og þúsundir áhorfenda á svæðinu.
Rúmlega eitthundrað sjálfboðaliðar tóku að sér hin ýmsu störf alla daga í Höllinni. Þessir duglegu sjálfboðaliðar leystu öll sín verkefni með bros á vör og voru alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd. Það er þessum sjálfboðaliðum að þakka að við hin gátum notið þessarar frábæru körfuboltaveislu.
Sérstaklega langar mig að minnast á þann stóra hóp unglinga sem kom og vann í Höllinni, því í dag er stundum látið að því liggja að erfitt sé að fá unglingana okkar að taka til hendinni. Svo er sannarlega ekki raunin hjá þeim öflugu unglingum sem unnu núna við Geysisbikarvikuna okkar.
TAKK TAKK kæru vinir og sjálfboðaliðir fyrir ykkar ómissandi framlag í Geysisbikarvikunni, án ykkar hefði þessi veisla ekki tekist svona vel og okkar þakklæti til ykkar er mikið.
Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ
Hannes S.Jónsson, formaður