13 feb. 2020Íslenska landslið karla hefur leik í forkeppni að undankeppni HM 2023 núna í febrúar dagana 20.-23. febrúar. Íslenska liðið leikur í einum af tveimur fjögurra liða riðlum forkeppninnar og er í riðli með Slóvakíu, Kosovó og Lúxemborg. Efstu tvö liðin í lok þriðja gluggans í febrúar 2021 þegar liðin hafa leikið heima og að heiman fara áfram í aðra umferð. 

Fyrsti leikur liðsins verður á útivelli gegn Kosovó þann 20. febrúar í Pristhina kl. 18:00 að íslenskum tíma og verður hann í beinni útsendingu á RÚV2. Íslenska liðið mun ferðst út mánudaginn 17. febrúar og vera þar við æfingar fram að fyrsta leik. Síðari leikurinn í þessum glugga verður svo heima í Laugardalshöllinni kl. 20:00 sunnudaginn 23. febrúar gegn Slóvakíu og verður hann einnig í beinni á RÚV2.

Craig Pedersen var endurráðinn þjálfari liðsins á dögunum og Baldur Þór Ragnarsson er aðstoðarþjálfari hans líkt og áður og sér um styrktarþjálfun liðsins að auki.

Ein breyting hefur orðið á aðstoðarþjálfarateyminu en Finnur Freyr Stefánsson verður ekki með liðinu áfram en hann er við störf sem aðalþjálfari Horsens í Danmörku. Í hans stað hefur Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjáflari karlaliðs Keflavíkur, verið ráðinn sem einn af aðstoðarþjálfurum landsliðsins en hann hefur þjálfað áður yngri landslið Íslands á ýmsum aldursstigum.

Leikmannahópurinn í þessum glugga verður þannig skipaður:

Nafn · Félag · Landsleikir
Breki Gylfason · Haukar · 6
Gunnar Ólafsson · Stjarnan · 18
Hjálmar Stefánsson · Haukar · 15
Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík · 82
Kári Jónsson · Haukar · 10
Kristinn Pálsson · Njarðvík · 13
Pavel Ermolinskij · Valur · 73
Pétur Rúnar Birgisson · Tindastóll · 9
S. Arnar Björnsson · Grindavík · 8 
Tómas Þórður Hilmarsson · Stjarnan · 4
Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza · 37
Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan · 61

Leikmenn sem voru valdir en eru ekki tiltækir að þessu sinni:
Elvar Már Friðriksson - Meiddur
Haukur Helgi Briem Pálsson - Er að ná sér eftir meiðsli, gefur ekki kost á sér
Kristófer Acox - Er að ná sér eftir meiðsli, gefur ekki kost á sér
Martin Hermannsson - Leikir í EuroLeague auk þess þarf hann í aðhlynningu v/ meiðsla

#korfubolti