4 feb. 2020Kolbrún Jónsdóttir (Dolla) verður jarðsungin frá Hallgrímskirkju í dag kl. 13:00.
Eftirfarandi minningargrein birtist í Morgunblaðinu í dag.
Nú með fráfalli Dollu okkar hefur körfuboltinn misst eina af sínum öflugustu konum, við syrgjum góða vinkonu sem ávallt bar hag KKÍ og körfuboltans að leiðarljósi. Dolla hafði undanfarið átt við erfið veikindi að stríða og eins og hennar var von og vísa þá barðist hún alveg fram á síðasta dag með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi, uppgjöf var ekki til hjá henni.
Dolla var körfuknattleikshreyfinginni afar mikilvæg, mikil KKÍ kona og mætti á alla þá viðburði sem hún gat. Afar gott var að leita í hennar reynslubanka og eiga við hana samtöl og þá yfirleitt hvernig við gætum eflt íþróttina okkar en frekar.
Dolla hefur gert nánast allt í kringum körfuna; var í stjórn KKÍ, framkvæmdastjóri KKÍ, sat í ýmsum nefndum sambandsins, þjálfari og leikmaður. Dolla tók að sér að verða landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins þegar það kom saman aftur 1986 eftir 13 ára hlé en kvennalandsliðið kom fyrst saman 1973 og ekki aftur fyrr en þarna 1986 þegar hún tók að sér þjálfunina.
KKÍ syrgir nú öflugan liðsmann sem hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum fyrir körfuboltann á Íslandi og við þökkum fyrir að hafa fengið að njóta krafta, vinskapar og keppnisskaps Dollu.
Haraldi, Steinþóru og fjölskyldu sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur
Fyrir hönd KKÍ
Hannes S. Jónsson, formaður
Guðbjörg N. Elíasdóttir, varaformaður