17 des. 2019
Fljótlega eftir að leik ÍR og Tindastóls í Domino´s deild karla lauk, kom upp orðrómur um að úrslitum leiksins hefði verið hagrætt og gefið sterklega í skyn að leikmenn Tindastóls hafi átt þar hlut að máli. Það er ljóst eftir skoðun KKÍ á leiknum að leikmenn Tindastóls hafi ekki komið að hagræðingu úrslita á leiknum og eiga engan hluta að þessum breytingum á forgjöf/stuðlum.
Ástæðan fyrir þessum sterka orðrómi var sú að forgjöf/stuðlar á leikinn hefðu breyst mjög hratt á skömmum tíma úr því að Tindastóll myndi vinna leikinn yfir í að Tindastóll myndi tapa leiknum. Í kjölfarið á þessum orðrómi ákvað KKÍ strax að grípa til aðgerða, enda er hagræðing úrslita ein mesta ógn sem íþróttahreyfingin stendur fyrir nú á tímum.
KKÍ hefur fengið einstaklinga til að skoða leikinn og fara yfir frammistöðu leikmanna bæði í vörn og sókn með það í huga að sjá hvort eitthvað óeðlilegt hafi átt sér stað.
Niðurstaðan er sú að svo sé ekki.
KKÍ óskaði eftir aðstoð frá Íslenskum getraunum, sem eru í eigu íþróttahreyfingarinnar, um að fyrirtækið léti skoða leikinn sérstaklega.
Niðurstaðan er sú að ekki var tippað óeðlilega á leikinn hjá Íslenskum getraunum.
Enn fremur var leitað til GLMS, Global Lottery Monitory System, sem er fyrirtæki í eigu getraunafyrirtækja sem hefur það að markmiði að fylgjast með óeðlilegum hreyfingum og stuðlabreytingum á markaði. Meðal samstarfsaðila GLMS eru Europol, Interpol ofl. Niðurstaða GLMS er að ekki séu líkur á að um hagræðingu úrslita sé að ræða.
Allar líkur eru á að þegar það verður á allra vitorði að Tindastóll hafði ferðast í rútu í nokkra klukkutíma til að komast í leikinn og að leiktíma hafi verið breytt úr 19:15 í 20:00 örfáum klukkutímum fyrir leik að þá hafi nokkrir tipparar talið að ferðalagið myndi sitja í liðsmönnum Tindastóls og að sigurlíkur ÍR hefðu þar að leiðandi aukist. Viðkomandi tipparar hafi því tippað á forgjöfina á erlendum vefsíðum. Ekki þarf umtalsverðar fjárhæðir til að stuðlarnir breytist á þann hátt sem reyndin varð.
KKÍ leggur mikla áherslu á að vinna gegn hagræðingu úrslita í íþróttum með öllum mögulegum ráðum. Hluti af þeirri ógn sem stafar frá hagræðingu úrslita í íþróttum á Íslandi kemur til vegna þess að óheftur aðgangur er fyrir hvern sem er að erlendum veðmálasíðum, án nokkurs eftirlits frá íslenskum stjórnvöldum. Er það mikið áhyggjuefni fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi.
KKÍ þakkar öllum þeim aðilum sem aðstoðu sambandið á undanförnum dögum fyrir hraða og góða vinnu.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.