30 maí 2019

Keppni hélt áfram á Smáþjóðaleikunum 2019 í Svartfjallalandi í dag og áttu okkar lið tvo leiki í dagskránni. Stelpurnar byrjuðu daginn á leik gegn Lúxemborg en fyrirfram var búist við að þær ásamt Svartfjallalandi yrðu okkar helstu andstæðingar á mótinu. Stelpurnar okkar byrjuðu vel og fylgdu því eftir frá fyrstu mínútu og höfðu töglin og höldin á andstæðingum sínum. Staðan eftir fysta leikhluta var 19:9 og svo 36:21 í hálfleik. Hildur Björg byrjaði vel með 16 stig í hálfleik og Hallveig kom sterk inn með 8 stig og 7 fráköst. 

Í seinni hálfleik héldu okkar stelpur áfram og lönduðu flottum sigri 76:48. Þær eiga eftir tvo leiki á mótinu, gegn Mónakó á morgun og svo á laugardaginn gegn Kýpur.

Stigahæst í dag var Hildur Björg Kjartansdóttir sem setti 20 stig og tók 6 fráköst og Hallveig Jónsdóttir var með 14 stig og 8 fráköst og Helena Sverrisdóttir var með 12 stig og 8 fráköst.

Strákarnir okkar léku svo kvöldleikinn gegn heimamönnum sem eru fyrirfram með sterkasta liðið. Okkar drengir áttu frábæran leik og héldu í við heimamenn allan leikinn og veittu þeim verðuga keppni. Staðan í hálfleik var 47:40 fyrir Ísland. Í þriðja leikhluta var staðan 58:58 um miðbikið hans og 66:72 að honum loknum fyrir Svartfjallaland. Eftir spennandi lokaleikhluta þá höfðu heimamenn sigur 86:92 þar sem okkar menn höfðu getað stolið leiknum með smá heppni.

Stigahæstir í dag voru þeir Elvar Már Friðriksson með 29 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar og nýtti öll 7 vítin sín. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson átti frábæra innkomu og setti 14 stig og Gunnar Ólafsson var með 11 stig. Þá skoraði Halldór Garðar Hermannsson sín fyrstu landsliðsstig en hann átti góða rispu og setti 7 stig á skömmum tíma. 

Næstu leikir:
Kvennaliðið leikur gegn Mónakó föstudag en strákarnir eiga frí á morgun og leika lokaleik sinn á laugardaginn eins og stelpurnar sem þá leika gegn Kýpur.

#korfubolti