25 feb. 2019

Í gær dag léku Belgía og Ísland sinn síðasta leik í forkeppni að undankeppni EM2021 í Mons í Belgíu. Fyrir leikinn hafði Belgía tryggt sér sigur í riðlinum og ljóst eftir sigur Íslands á Portúgal að Ísland myndi hafna í öðru sæti riðsilsins og því leika í þriðju umferð forkeppninnar sem fram fer í 7.-21. ágúst.

Ísland byrjaði leikinn vel og voru stigi undir eftir fyrsta leikhluta. Belgía vann annan leikhluta með 9 stigum og stóðu leikar 43:33 í hálfleik. Hávaxið lið Belga hélt uppteknum hætti í þeim þriðja sem þeir unnu með 12 stigum og því þægilegt forskot þeirra staðreynd sem þeir létu ekki af hendi í lokaleikhlutanum. 

Lokatölur 90:62 þar sem Tryggvi Snær Hlinason var stigahæstur íslenska liðsins með 17 stig og tók einnig 7 fráköst. Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson skoruðu báðir 12 stig og gáfu fjórar stoðsendingar hvor. 

Búið er að draga í þriðju umferð keppninnar þar sem Ísland lenti með Sviss og Portúgal í riðli. Leikið verður heima og að heiman og verður efsta liðið eftir þá leiki í pottinum hjá FIBA þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EuroBasket 2021.

#korfubolti