21 feb. 2019
Ísland lagði Portúgal 91-67 í forkeppni EuroBasket 2021 í Laugardalshöll í kvöld. Frábær stemning var á leiknum og áhorfendur sem fylltu Laugardalshöll fengu að sjá Jón Arnór Stefánsson og Hlyn Bæringsson í síðasta sinn í íslensku landsliðstreyjunni.
Það var sérstakur andi í húsinu í kvöld og fyrir leik voru Jón Arnór og Hlynur kallaðir út á gólf og voru þeir heiðraðir sérstaklega fyrir þeirra framlag. Áhorfendur klöppuðu vel og lengi fyrir þeim.
Smá seinkun varð á leiknum í upphafi vegna vandræða með skotklukkurnar. En sú bið virtist engin áhrif hafa á leikmenn íslenska liðsins sem mættu til leiks sjóðandi heitir og settu hvert skotið á fætur öðru.
Munurinn varð fljótt að 10 stigum og svo 20 og svo í 30 stig. Sigur Íslands var öruggur og sanngjarn og liðið spilaði frábærlega.
Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson áttu báðir frábæra leiki. Jón Arnór var stigahæstur á vellinum með 17 stig og Hlynur frákastahæstur á vellinum með 12 fráköst. Afar viðeigandi í kveðjuleik þeirra.
Í leikslok fengu þeir heiðursskiptingu og fögnuðu áhorfendur þeir þeim vel og innilega.
Næsti leikur Íslands er á sunnudag gegn Belgíu ytra og er það lokaleikur Íslands í þessari riðlakeppni.