29 nóv. 2018

Ísland tapaði fyrir Belgíu í kvöld 66-79 í forkeppni vegna EuroBasket 2021. Leikið var í Laugardalshöll og þeir 1.250 áhorfendur sem mættu á leikinn sáu skemmtilegan körfuboltaleik.

Íslenska liðið byrjaði betur en gestirnir í leiknum og var það varnarleikur liðsins sem lagði grunninn að góðum leikhluta. Kristófer Acox lokaði leikhlutanum með flautukörfu og Ísland leiddi 22-15.

Eins og fyrsti leikhluti var góður hjá strákunum var annar leikhluti andstaðan. Fátt gekk upp í sókn né vörn og Belgarnir söxuðu jafnt og þétt og jöfnuðu og keyðru svo upp muninn og leiddu að lokum 34-43 í hálfleik.

Þriðji leikhluti var sveiflukenndur en Belgarnir voru sterkari í fyrri hluta hans en Ísland vann lokamínútur leikhlutans 9-2 og munaði þá sex stigum 50-56 fyrir lokaleikhlutann.

Íslenska liðið reyndi að gera allt sem það gat til þess að jafna og komast yfir en skotin vildu ekki detta ofaní. Hetjuleg barátta dugði ekki til og í lokin reyndi liðið allt sem það gat til að minnka muninn en Belgarnir náðu þá nokkrum auðveldum körfum og unnu að lokum 66-79.

Stigahæstur hjá Íslandi var Hlynur Bæringsson með 16 stig og næstur honum var Hörður Axel Vilhjálmsson með 14 stig.

Tölfræði leiksins

Staðan í riðlinum